150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

Alþingi sem fjölskylduvænn vinnustaður.

334. mál
[15:05]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er svo margt sem lítið er gert úr á vissan hátt. Ég tel t.d. að á mörgum stöðum sé lítil þolinmæði fyrir alþjóðastarfi Alþingis. Það er gert lítið úr því líka og jafnvel látið líta svo út að þetta séu einhvers konar skemmtiferðir sem menn fái borgað fyrir. Menn halda líka að þingmenn fái borgað fyrir nefndastörf sérstaklega og ýmislegt. Það er vont þegar svona misskilningur er.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um hvernig væri hægt að gera þetta án þess að fjölga þingmönnum má kannski gera hvort tveggja, fjölga þeim um fimm og bæta við aðstoðarmönnum. Þar á er verulegur munur, þegar kemur að stykkinu held ég að aðstoðarmenn geti vissulega minnkað verulega álag á þingmenn. Það er ferli sem er þegar hafið, það er byrjað að ráða tvo, þrjá menn á hvern þingflokk. Í öðrum löndum sér maður að aðstoðarmenn geta verið milli fimm og tíu fyrir einn þingmann á stórum þingum þannig að þeir eru með heila skrifstofu. Ég er ekki að tala um neitt slíkt. Ég er ekkert fastur í tölunni tíu. Það má vel vera að það sé hægt að gera hvort tveggja. En þegar kemur að stykkinu — þingmaður þarf að undirbúa ræður, taka þátt í öllum fundunum sem fyrirskrifaðir eru og það geta aðstoðarmennirnir ekki gert — held ég engu að síður að þessir rúmlega 50 séu enn of fáir en ég vildi óska þess að ég hefði sjálfur einn og sér einn aðstoðarmann. Það myndi skipta mig miklu máli.