151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

áfengislög.

504. mál
[20:19]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á áfengislögum, nr. 75/1998, lögum um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011, og lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með síðari breytingum. Með frumvarpinu er lagt til að smærri brugghúsum verði heimilt að selja áfengt öl á framleiðslustað að fengnu framleiðslusöluleyfi en þannig verði lögfest ein undanþága frá einkasölu ríkisins á smásölu áfengis.

Á undanförnum áratug hefur smærri brugghúsum, svokölluðum handverksbrugghúsum, fjölgað mikið um allt land. Handverksbrugghús eru brugghús sem eru í eðli sínu smá og leggja áherslu á minni framleiðslu, gæði og sjálfstæði. Árið 2018 voru stofnuð Samtök íslenskra handverksbrugghúsa og eru á þriðja tug smærri brugghúsa meðlimir í samtökunum. Samhliða fjölgun innlendra brugghúsa hefur eftirspurn og áhugi almennings á innlendri áfengisframleiðslu aukist. Endurspeglast það m.a. í umtalsverðri fjölgun á íslenskum áfengisafurðum, þá sérstaklega áfengu öli. Með frumvarpinu er leitast við að styðja við áframhaldandi vöxt og þróun á rekstrarumhverfi smærri brugghúsa á Íslandi með litlu skrefi. Fyrir utan aukna fjölbreytni í vöruúrvali hafa brugghúsin skapað ný störf, og þá sérstaklega á landsbyggðinni, og nýja veltu í íslensku hagkerfi. Með samþykkt þessa frumvarps verður handhafa leyfis til sölu áfengis á framleiðslustað heimilt að selja áfengt öl sem er að rúmmáli ekki meira en 12% af hreinum vínanda í smásölu á framleiðslustað. Einungis smærri brugghús geta fengið framleiðslusöluleyfi en skilyrði fyrir veitingu leyfisins er að umsækjandi framleiði ekki meira en 500.000 lítra af áfengi á almanaksári.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að á þriðja tug brugghúsa séu í samtökum íslenskra handverksbrugghúsa er áfengisframleiðsla téðra brugghúsa ekki hátt hlutfall af heildaráfengisframleiðslu Íslands. Verði frumvarpið að lögum og sala áfengs öls á framleiðslustað í smásölu heimiluð mun það fela í sér tiltölulega litla aukningu á seldu áfengi og gera má ráð fyrir að sala á grundvelli framleiðslusöluleyfis eigi sér fyrst og fremst stað í tengslum við ferðaþjónustu hjá leyfishafa. Þá má einnig ætla að breytingin sem lögð er til muni styrkja sölu leyfishafa í nærumhverfi sínu. Í því sambandi þarf þó að hafa í huga að framleiðslustöðvar áfengisframleiðenda eru almennt ekki staðsettar þar sem hefðbundin verslun fer fram. En hvað sem því líður má ætla að breytingin muni styrkja rekstur smærri brugghúsa, sérstaklega á landsbyggðinni, sem eiga erfitt með að koma vörum sínum að í ÁTVR. Í samræmi við fyrirkomulag varðandi innflutning, framleiðslu og heildsölu áfengis er með frumvarpinu lagt til að heimilt verði að selja áfengt öl á framleiðslustað að fengnu leyfi til þess. Sýslumenn munu annast leyfisveitinguna og lögreglu-, tollgæslu- og skattyfirvöld annast eftirlit. Ráðherra mun með reglugerð geta kveðið nánar á um leyfisveitinguna og eftirlit með leyfishöfum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að til viðbótar við hin almennu skilyrði fyrir veitingu leyfa í áfengislögum verði aukin skilyrði fyrir veitingu framleiðslusöluleyfis. Handhafi slíks leyfis þarf að vera með framleiðsluleyfi og sýslumaður skal leita umsagnar hlutaðeigandi sveitarfélags. Þá munu sveitarstjórnir hafa ákvörðunarvald um hvort smásala á framleiðslustað eigi sér stað innan sveitarfélagsins og hvernig.

Hæstv. forseti. Með frumvarpinu er komið til móts við sjónarmið þeirra sem vilja aukið frjálsræði í verslun með áfengi sem og þeirra sem kjósa aðhaldssama stefnu í áfengismálum. Frumvarpið hróflar ekki við hlutverki áfengisverslunar ríkisins, felur ekki í sér tillögur um breytingu á áfengisstefnu, áherslur í lýðheilsumálum eða tekjuöflun ríkisins á þessu sviði. Í þessu frumvarpi eru ekki lagðar til neinar breytingar sem fela í sér að áfengi verði sýnilegra í íslensku samfélagi en nú er heldur verði sú leið farin að heimila einungis smásölu áfengis á framleiðslustað. Þrátt fyrir auknar heimildir til smásölu á áfengi sem frumvarpið gerir ráð fyrir verða áfengisauglýsingar enn óheimilar og allur hefðbundinn verslunarrekstur með áfengi verður enn í höndum áfengisverslunar ríkisins. Frumvarpið felur því ekki í sér grundvallarbreytingar á áfengislöggjöf landsins. Verði frumvarpið að lögum er ekki talið að það muni hafa teljandi áhrif á lýðheilsu þjóðarinnar þrátt fyrir fjölgun á áfengisútsölustöðum. Síðastliðna áratugi hefur fjöldi sölustaða áfengis aukist umtalsvert og á það bæði við um fjölda verslana ÁTVR sem og fjölda vínveitingaleyfa veitingastaða og öldurhúsa víða um land án þess að samsvarandi aukning hafi orðið á áfengisneyslu meðal þjóðarinnar. Styðst það m.a. við upplýsingar frá embætti landlæknis um áfengisneyslu á Íslandi. Verði frumvarpið að lögum er ekki gert er ráð fyrir að það muni hafa í för með sér teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs og ekki er talið að það muni hafa áhrif á fjárhag sveitarfélaga önnur en að auka almenna veltu á þeim svæðum þar sem finna má brugghús.

Sem liður í undirbúningi frumvarpsins voru frumvörp til breytinga á áfengislögum birt í samráðsgátt stjórnvalda 29. nóvember 2019 og aftur 28. september 2020. Í þeim frumvörpum er gert ráð fyrir að samhliða framleiðslusöluleyfi yrði sala áfengis í vefverslun heimiluð. Gildandi lagaumhverfi felur nefnilega í sér mikið ójafnræði milli innlendrar og erlendrar verslunar sem er í senn ósanngjarnt og fer gegn hagsmunum bæði framleiðenda og neytenda. Það skýtur skökku við að íslenskir neytendur geti pantað sér áfengi úr erlendum áfengisverslunum, þá fyrst og fremst í gegnum vefverslanir, en ekki gert slíkt hið sama úr sambærilegum innlendum verslunum. Fá ef nokkur dæmi má finna í íslenskum lögum þar sem almenningi er heimilt að kaupa vörur frá erlendum verslunum til innflutnings en honum meinað að kaupa sömu vöru af íslenskri verslun. Var tillagan um heimild til sölu áfengis í vefverslun þannig sett fram með vísan til þess að núverandi fyrirkomulag stæðist vart nútímalegar kröfur um jafnræði og var lagt til að breyta lögunum til að tryggja það jafnræði og samkeppni innlendrar verslunar við þá erlendu. Breytingin náði hins vegar ekki fram að ganga og voru ákvæði um heimild til sölu áfengis í vefverslun tekin út úr frumvarpinu. Við undirbúning frumvarpsins var leitað leiða til að greina þau sjónarmið og athugasemdir sem bárust í kjölfar þess að frumvarpið var birt tvisvar í samráðsgátt stjórnvalda.

Frumvarpið varðar réttindi sem varin eru af 65. og 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Með frumvarpinu er stuðlað að því að styrkja atvinnufrelsi og jafnrétti með hliðsjón af framangreindum ákvæðum. Við gerð frumvarpsins var tekið til skoðunar hvort sú tilhögun að veita tilteknum innlendum áfengisframleiðendum heimild til smásölu á áfengu öli á framleiðslustað fæli í sér mismunun sem bryti í bága við 11. og 16. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Var niðurstaðan sú að svo væri ekki.

Virðulegi forseti. Áfengi er í dag lögleg neysluvara en íslenskir stjórnmálamenn hafa í áratugi kosið að leggja ýmsar hömlur á neyslu áfengis meðal almennings. Þann 1. mars nk. verða liðin 32 ár frá því að bjór var leyfður hér á landi. Hann hafði þá verið bannaður í rúm 70 ár en á sama tíma var löglegt að drekka hér mun sterkara áfengi. Ég tel mig geta fullyrt að fáum dytti í hug að hverfa aftur til þess tíma þar sem Íslendingar drukku bjór í útlöndum og aðeins fáir útvaldir hópar fengu að flytja með sér bjór til landsins. En svona var þetta um langt skeið þar sem hér á landi voru í gildi sérstakar og strangari reglur en í öðrum löndum. Margir beittu sér fyrir lögleiðingu bjórsins og í þeirri andstöðu féllu ýmis ummæli sem hafa ekki elst vel. Þær dökku myndir sem þá voru teiknaðar upp hafa ekki orðið að veruleika en þær eru fyrst og fremst áminning fyrir okkur sem sitjum á Alþingi að það er ekki hlutverk okkar að hafa vit fyrir fólki. Það frumvarp sem hér er lagt fram felur í sér mikla framför í frelsisátt. Við eigum að treysta fólki til að taka ákvarðanir um eigið líf og það þurfa að vera afar sérstök rök fyrir því að skerða valfrelsi almennings í þessum málum sem og öðrum. Frumvarpið tryggir aukið jafnræði og er lyftistöng fyrir lítil samfélög. Það er lagt hér fram eftir áskoranir frá fjölmörgum aðilum, litlum brugghúsum, sveitarfélögum og rekstraraðilum, sem mörgum hverjum finnst miður að ekki hafi náðst að hafa hér í frumvarpinu vefverslun með áfengi. Almennt tel ég að ríkisvaldið eigi ekki að ákveða hvað, hvort og hvernig landsmenn neyta drykkjarfanga og að ríkið eigi að einbeita sér að öðru en að hamla innlendum aðilum að standa í eðlilegum viðskiptum hér á landi.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.