151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

áfengislög.

504. mál
[20:50]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég verð nú að viðurkenna að ég var ekki búin að skilgreina þetta niður á eitthvert tiltekið magn, hvort sem það væri í flöskum eða kippum eða einhverju öðru talið. Hins vegar ítreka ég það sjónarmið að hér erum við að tala um að brugghús sem framleiða áfengi megi einnig selja þeim sem koma í heimsókn sína vöru og þá finnst mér, eins og málið er sett fram, gefa augaleið að þar séum við að tala um að maður sé ekki að kaupa þetta í slíku magni að það sé til annars en að geta tekið með einhvers konar prufu af því sem maður hefur verið að fræðast um og smakka á framleiðslustaðnum. En þetta held ég að sé eitt af því sem nefndin eigi að skoða og velta mjög vel fyrir sér.