151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

áfengislög.

504. mál
[20:58]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Stuðningur minn við þetta mál út úr þingflokki mínum sneri einmitt að því hvernig umbúnaðurinn um það er og vegna þess að við erum með þessa afmörkuðu mynd. Mér fannst það sem lagt hefur verið fram varðandi netverslunina ekki vera til þess fallið að ég myndi vilja styðja það. Þar tel ég að heilbrigðis- og lýðheilsumálin skipti sérlega miklu máli vegna þess að þá erum við að tala um allt annars konar aðgengi að áfengi en við erum með nú. Ég segi allt annars konar aðgengi, þó svo að ég viti hvernig löggjöfinni er háttað núna, því þar tel ég um svo mikla breytingu að ræða. En ég efast ekkert um að einhverjir hv. þingmenn vilji skoða þann anga málsins í allsherjar- og menntamálanefnd og þá er það bara þannig.

Hvað varðar magnið, eins og ég hef margsagt hér í kvöld, held ég að það sé bara eitthvað sem nefndin eigi að skoða. Það er þekkt að við erum með kerfi þar sem eru magntölur, hvort þær eigi við í þessu frumvarpi eða ekki, ég skal ekki segja um það. En það er í mínum huga útfærsluatriði og eitthvað sem við eigum bara að skoða.