151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

áfengislög.

504. mál
[21:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði ekki að lengja þessa umræðu en vildi þó örstutt koma á framfæri stuðningi við frumvarpið og þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir flutning þess. Ég held að það sé mikilvægt að koma þessari breytingu í íslenska löggjöf, m.a. út frá aðgengi neytenda sem ég held að aukist að þessum tilteknu vörum sem þarna er um að ræða. Ég hef ekki áhyggjur af því að það auki heildarneyslu í landinu eða leiði til þess að farsóttir færist í aukana hér eða í sjálfu sér að ofbeldi aukist vegna þess að ég held að áfengi, sem er nú þegar lögleg vara í landinu, hafi jafn skaðleg áhrif hver sem söluaðilinn er. Ég held að það skipti ekki máli hvort það er ríkisstarfsmaður, starfsmaður einkaverslunar eða starfsmaður brugghúss sem afhendir vöruna.

Um fyrirkomulag og útfærslu má auðvitað ræða á vettvangi allsherjarnefndar og eins og kom fram í andsvörum hjá mér áðan þá myndi ég sem nefndarmaður í allsherjar- og menntamálanefnd vera reiðubúinn að skoða breytingar á frumvarpinu til að færa þær í enn frekari frjálsræðisátt. Þá er ég nú bæði með í huga ágætar breytingar sem má finna í frumvarpi Þórarins Inga Péturssonar, hv. þingmanns Framsóknarflokksins og annarra þingmanna Framsóknarflokksins, að því marki sem þær eru í frjálsræðisátt. Þær eru nokkrar sem lúta að útvíkkun þeirra skilyrða sem þarna er um að ræða. Ég verð hins vegar að játa það að mér finnst sérstakrar tillögur sem þar koma fram um að tilteknar tegundir bjórs megi aðeins selja í sex stykkjatali til neytenda og aðrar aðeins sterkari bjórtegundir megi bara selja þrjár dósir eða flöskur til viðkomandi og eitthvað svoleiðis. Ég hef efasemdir um þetta en ætla svo sem ekki að fara nákvæmlega út í það.

Ég held að frumvarpið hljóti að eiga ríkan stuðning hér í þinginu og jafnvel þótt við förum í grunnskoðun og góða skoðun á lýðheilsusjónarmiðum þá held ég að það breyti ekki málinu í meginatriðum og eigi ekki að verða til þess að draga úr stuðningi við það. Hér hefur aðeins verið vikið að öðrum þætti málsins sem ekki er að finna í þessu frumvarpi og það varðar netverslun með áfengi. Þar erum við auðvitað eins og á þessu sviði í svolítið einkennilegri stöðu þar sem íslenskir neytendur geta keypt áfengi af erlendum netverslunum en geta ekki keypt af íslenskum netverslunum, sem er mjög skringilegt fyrirkomulag. Ég játa það að ég sé ekki rökin fyrir þessari takmörkun eða hindrun og held að það hljóti að verða skoðað af hálfu þingsins, hvort sem það verður með breytingum á þessu frumvarpi eða með öðrum hætti. Ég held að það sé mikilvægt að ræða það í samhengi vegna þess að það er eitthvað við núverandi fyrirkomulag að þessu leyti sem er að mínu mati fullkomlega órökrétt. Það er fullkomlega órökrétt að neytandi á Íslandi geti valið að kaupa áfengi af vefverslun sem er staðsett í Englandi eða Danmörku en geti ekki keypt af vefverslun sem er staðsett í Reykjavík. Það er bara eitthvað órökrétt í þessu og það geta ekki verið veigamikil lýðheilsurök fyrir mismunun að þessu leyti.

Hæstv. forseti. Ég lofaði því í upphafi að fara ekki mörgum orðum um þetta en ég vildi þó taka fram að lokum að ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til að gera breytingar á áfengislöggjöfinni hérna á undanförnum árum með það að markmiði að auka frjálsræði í sölu og viðskiptum með þessa neysluvöru. Ég held að í öllum þeim tillögum hafi verið með einhverjum hætti gert ráð fyrir stífari reglum og stífari umgjörð heldur en finna má um flestar aðrar vörutegundir, þ.e. í hvert skipti sem hér hafa komið frumvörp sem hafa gengið út á að annaðhvort afnema einkarétt ríkisins til smásölu á áfengi eða rýmka reglurnar að öðru leyti þá hefur engu að síður áfram verið gert ráð fyrir því að það væri stífara regluumhverfi um sölu þessarar vöru heldur en annarrar vöru. Það hygg ég að verði áfram. Þetta frumvarp felur í sér skref sem í heildarsamhenginu er tiltölulega lítið en er þó mikilvægt fyrir þá aðila sem reka þessi brugghús, fyrir byggðarlögin þar sem þau eru staðsett, fyrir viðskiptavini sem vilja gjarnan kynna sér þær vörur sem þarna eru á boðstólum og vilja njóta þessara veitinga eða vöru sem þarna er í boði. Ég held að við getum gert þessar breytingar án þess með nokkrum hætti að stefna lýðheilsu í landinu í hættu og ég spái því nú að þegar þetta frumvarp verður orðið að lögum þá muni menn klóra sér í kollinum og spyrja: Hvernig í veröldinni datt mönnum í hug að banna þetta?