151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur.

505. mál
[22:00]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989. Frumvarp þetta var unnið í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu í samvinnu við Endurvinnsluna hf. og aðra hagsmunaaðila. Áform um lagasetninguna og frumvarpsdrög voru auk þess birt í samráðsgátt stjórnvalda á nýliðnu ári til kynningar og gefinn var kostur á að senda inn athugasemdir.

Lög um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur voru upphaflega samþykkt árið 1989 og samhliða var Endurvinnslan hf. stofnuð til að annast umsýslu skilagjalds og söfnun og endurvinnslu drykkjarvöruumbúða. Endurvinnslan hf. starfrækir því skilakerfi drykkjarvöruumbúða og ber að koma upp skilvirku fyrirkomulagi á söfnun þeirra um land allt, kappkosta að ná sem bestum skilum og koma umbúðunum til endurvinnslu. Skilagjald og umsýsluþóknun vegna drykkjarvöruumbúða eru samkvæmt lögunum innheimt við tollafgreiðslu og lögð á drykkjarvörur sem eru framleiddar eða átappaðar hér á landi. Gjöldin eru einnig lögð á drykkjarvörur sem seldar eru í tollfrjálsri verslun við komu farþega og áhafna til landsins.

Meginmarkmið frumvarpsins er að bæta umhverfi endurvinnslu og skilagjalds á umbúðir fyrir drykkjarvörur. Tilefnið er eftirfylgni með tillögum starfshóps um málefnið frá árinu 2018. Starfshópnum var m.a. falið að taka til skoðunar álagningu og innheimtu skilagjalds í samhengi við fríhafnarsvæði og frílagera. Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar frá Samtökum atvinnulífsins, Umhverfisstofnun, Endurvinnslunni hf., frjálsum félagasamtökum og tollstjóra. Frumvarpið felur einnig í sér viðbrögð við beiðni Endurvinnslunnar hf. um breytingar á umsýsluþóknun og skilagjaldi.

Í frumvarpinu er í fyrsta lagi gerð tillaga að því að fella inn í lögin sérstakt markmiðsákvæði, sem til þessa hefur ekki verið að finna í lögunum. Ákvæðið er til samræmis við markmið hringrásarhagkerfisins um lágmörkun á auðlindanotkun og úrgangsmyndun og endurspeglar einnig þá stefnumótun sem á sér stað á EES-svæðinu um hringrásarhagkerfið.

Í öðru lagi er lögð til tveggja krónu hækkun á skilagjaldi á hverja umbúðaeiningu drykkjarvara með virðisaukaskatti, sem er í samræmi við hækkun á vísitölu neysluverðs. Skilagjald sem fylgir almennu verðlagi í landinu viðheldur hvatanum til að skila umbúðum í réttan farveg. Þá eru lagðar til hækkanir á umsýsluþóknun umbúða. Ýmsar ástæður eru fyrir tillögu um hækkun á umsýsluþóknun, m.a. aukinn rekstrarkostnaður hjá Endurvinnslunni hf. Hún ber þá skyldu að reka skilvirkt skilakerfi og verða tekjur félagsins af skilagjaldi og umsýsluþóknun að standa undir rekstrinum. Skil á umbúðum til endurvinnslu hafa aukist undanfarið og þar með hefur hærra hlutfall skilagjalds verið endurgreitt til neytenda, sem annars hefur farið í rekstur Endurvinnslunnar hf. Félagið hefur þá kostað til fjármagni til að ná enn betri skilum, m.a. með fræðslu til almennings um umhverfisgildi endurvinnslu, auk þess sem almennar launahækkanir hafa átt sér stað. Lækkun hefur einnig orðið á álverði á heimsmarkaði, sem hefur áhrif á tekjur félagsins af sölu álumbúða til endurvinnslu, og hefur verðlækkun einnig orðið á plasti. Þá býr Endurvinnslan hf. sig undir að breyta ferlum er varða meðhöndlun á gleri og ráðgerir að endurvinnsla á gleri hefjist 2021, þ.e. í ár. Það verður mikilvægt framfaraskref og stuðlar að því að Ísland nái settum markmiðum um endurvinnslu þeirra glerumbúða sem falla hér til en það kallar á útflutning glersins og hefur í för með sér meiri kostnað en núverandi meðhöndlun.

Í frumvarpinu er samhliða skilgreindur nýr flokkur umbúða úr endurunnu, ólituðu plastefni, sem gert er ráð fyrir að beri lægra umsýslugjald en aðrar plastumbúðir. Ástæða þessa er sú að endurunnið plastefni er umhverfisvænna en nýtt og felur lægra umsýslugjald á umbúðum úr slíku plastefni í sér hvata til umhverfisvænni framleiðslu.

Í frumvarpinu er í þriðja lagi gerð tillaga um að skilakerfi drykkjarvöruumbúða nái utan um allar gjaldskyldar drykkjarvöruumbúðir. Til þessa hefur sala úr tollfrjálsri verslun við brottför frá landinu verið undanþegin gjaldskyldu. Því er lagt til að aðilar sem selja farþegum og áhöfnum millilandafara vörur úr tollfrjálsri verslun við brottför frá landinu skuli leggja á og greiða skilagjald og umsýsluþóknun rétt eins og gilt hefur um sölu á drykkjarvörum við komu til landsins. Einnig er gerð tillaga um að gjaldskylda nái til sendiráða og alþjóðastofnana. Talið er að þessar umbúðir verði að stórum hluta eftir í landinu og skili sér til Endurvinnslunnar hf., sem endurgreiðir skilagjald af þeim jafnvel þótt skilagjald hafi aldrei verið greitt.

Að lokum er í frumvarpinu lögð til breyting á orðalagi til að samræmis gæti á milli laganna og ákvæða laga um meðhöndlun úrgangs hvað varðar forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs þar sem lögð er áhersla á endurnotkun, endurvinnslu og aðra endurnýtingu.

Frumvarpið er til þess fallið að auka enn frekar skil á einnota drykkjarvöruumbúðum, auka endurvinnslu þeirra, ekki síst glers, en um leið að tryggja rekstur Endurvinnslunnar hf. Þá eru fjárhagsleg áhrif þess á ríkissjóð metin óveruleg.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.