151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur.

505. mál
[22:10]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Þetta leiðir hugann að kjörorði umhverfisráðherra í úrgangsforvörnum, Saman gegn sóun. Af því að við vorum að nefna Keflavíkurflugvöll þá þekkjum við þetta gríðarlega umfang í flugþjónustu. Það hlýtur að falla til óhemju úrgangur, m.a. úr flugvélum sem hingað koma. Ég velti fyrir mér hvort þessi úrgangur sé allur flokkaður, og þar með einnota umbúðir úr plasti, áli og gleri, hvað verði um þennan úrgang og ef einhverju er ábótavant þarna hvort ekki þurfi að hnika einhverju til.

Aðeins varðandi glerið. Fram kemur í frumvarpinu og það kom fram í máli hæstv. ráðherra að á þessu ári skuli hafin endurvinnsla á gleri og það eigi við um glerumbúðir utan um drykkjarvörur. En það er ýmislegt annað sem til fellur úr gleri. Við neytendur þekkjum það. Það eru glerkrukkur og glerílát sem við erum stöðugt að vandræðast með. Það er utan þessa kerfis. Hvað hyggst hæstv. ráðherra gera í þessu? Og hvað með endurvinnsluna á glerinu? Hvað verður um glerið þegar það fer í endurvinnslu? Verður unnið að endurvinnslu hér heima eða verður þetta flutt úr landi? Og hvaða endurvinnslumöguleika sér hæstv. ráðherra í glerinu hérna heima?

Ég vil bara lauma að einni aukaspurningu í lokin. Hún er auðvitað í anda hringrásarkerfisins. Við vitum að stefnt er að innleiðingu EES-tilskipana sem varða hringrásarkerfið. Hvað líður því og hvenær getum við farið að taka okkur á í þessum efnum, enn frekar en við gerum í dag?