Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:57]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hennar svar. Ég get ekki annað en skilið það sem svo að hún meti það þannig að þetta frumvarp sé bara einhvers konar bútasaumur, þar sem verið er að tína til einhverja hluti sem hafa komið upp og reyna að slá einhverjum ramma utan um það.

Það sem mig langar að velta fyrir mér núna, af því að þetta snýst líka að stórum hluta um að koma fólki frá, þá er spurningin: Hvert ætlum við að koma fólki? Ég kíkti á þennan lista yfir þessi öruggu ríki í gær og sá í sjálfu sér ekkert athugavert við það annað en hvað varðar ákveðin ríki — ríki sem við, nokkrir þingmenn, höfum talað fyrir að ekki væri verið að senda fólk til, eins og Grikklands og Ítalíu og Spánar — sem eru í raun stútfull af flóttafólki og ráða illa við að sinna þessu hlutverki. Síðan er þessi heimild til staðar að senda fólk annað, út fyrir þessi ríki. Þó að Grikkland sé slæmt þá eru það önnur ríki sem eru bara miklu verri. Á Útlendingastofnun bara að meta það sem svo að það sé sanngjarnt og eðlilegt að senda fólk þangað?

Írak? Er eðlilegt að senda fólk þangað? Er eðlilegt að senda fólk til Tyrklands? Er eðlilegt að senda fólk til Sýrlands eða niður til Suður-Ameríku? Maður veltir fyrir sér slíkum hlutum. Á það bara að vera á borði Útlendingastofnunar að meta það hverju sinni hvað henni þyki við hæfi að gera í það og það skiptið? Er virðing fyrir mannslífum og fyrir því að fólk geti lifað sómasamlegu lífi ekki meiri en það að við erum tilbúin til að senda fólk nánast hvert sem er?