Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:35]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Það er auðvitað rannsóknarefni hvernig þetta liggur og það er óþægilegt þegar jafnvel heilu þingflokkarnir eru þögulir um eins mikilvægt frumvarp og hér er verið að ræða. Því miður hef ég ekki orðið vör við marga almenna þingmenn úr stjórnarmeirihlutanum taka þátt í þessari umræðu. Á því eru einhverjar undantekningar að sjálfsögðu. En það læðist að manni sá grunur að annaðhvort treysti þingmenn sér ekki til að lýsa hér yfir úr ræðustóli eindregnum stuðningi við efni þessa frumvarps, það kann að vera, ég veit það ekki, það væri gott að heyra af því. Það væri líka gott að heyra af því ef einhverjir þeirra sem styðja þessa ríkisstjórn hafa efasemdir eða athugasemdir eða eru jafnvel andsnúnir málinu, en ég hef ekki orðið vör við að það hafi komið fram. En ég gef lítið fyrir yfirlýsingar á síðustu stundu um að nú komi einhverjar breytingar sem er svona hent fram í fjölmiðlum án þess að það komi hingað inn í þingið. Auðvitað er hægt að koma með breytingartillögur alveg fram í 3. umr. en hafi ég lesið málið rétt þá er þetta alveg fyrirvaralaust, t.d. af hálfu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sem einhvern tímann áður í hinu langa ferli hafði gert fyrirvara við einhver atriði ef ég fer rétt með. Ég verð bara að viðurkenna að ég held að það sé bara svona pólitísk redding til að reyna að mýkja aðeins umræðuna um þetta mál, ég ætla bara að fá að orða það þannig.