Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:38]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég er hingað komin til að taka undir þessa kröfu sem er mjög eðlileg. Ég verð að játa að ég er ný hérna og skil ekki alveg þessi svör sem koma núna fram öðru sinni frá hæstv. forseta, að málið sé í meðförum þingsins og þá væntanlega meint að það sé ekki á borði ráðherra. Annars vegar er hæstv. ráðherra í fyrsta lagi líka þingmaður og því ekki eins og hann eigi ekki erindi í þennan sal. Í öðru lagi þá þýðir ekki, þótt málið sé ekki í hans höndum og á hans borði, að við þurfum ekki að fá svör frá honum inn í þessa umræðu. Við þurfum að fá þau. Við þurfum að fá hans afstöðu og þurfum að vita hvað er í gangi. Mjög mörgum spurningum er ósvarað sem hæstv. ráðherra getur svarað. Það er bara mjög eðlileg beiðni að hann komi og taki þátt í þessari umræðu og snýst ekki um að láta hann fá málið og sjá um það, heldur um að fá svör við spurningum sem við höfum. Þar sem það gekk náttúrulega ekki að klára þetta mál í allsherjar- og menntamálanefnd, af því að það var svo mikill asi að koma því inn í þingsal, þá verðum við bara að vinna það hér. Ég tek undir þessa kröfu.