Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:09]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur fyrir andsvarið. Nei, hún skildi mig ekki rétt. Ég er ekki á þeirri skoðun að það þurfi að afnema þessa meginreglu. Ef við eigum að fara út í mínar persónulegu skoðanir þá held ég að við séum komin út í allt aðra umræðu hérna, óþarfa og ótengda þessu frumvarpi.

Það sem ég sagði var að ég er á þeirri skoðun, ef ég set mig bara inn í þann ramma sem ég ímynda mér að íslensk stjórnvöld og kannski flestir fulltrúar hér á þingi vilji halda sig innan, þó að ég sé kannski með róttækari einstaklingum hér inni — ef ég reyni að setja mig inn í þann ramma sem fólk vill hafa hérna þá held ég að það sé algjörlega óhætt að taka skref á borð við það að hætta að senda fólk til Grikklands. Ég nefndi Grikkland sérstaklega áðan. Það er ekki bara mín skoðun að fólk sem hefur fengið vernd í Grikklandi eigi að geta komið hingað og sótt um alþjóðlega vernd, það er íslensk löggjöf. Þetta virðist þingmönnum Sjálfstæðisflokksins ekki vera alveg ljóst. Svona eru lögin í dag, þau segja: Ef sérstakar ástæður mæla með því þá skal umsóknin tekin til efnismeðferðar og líka ef það eru tengsl við landið en þau þurfa að vera ansi náin, og hafa verið ræktuð. Ég get farið út í það í annarri ræðu síðar.

Ég er á þeirri skoðun að við eigum í fyrsta lagi að fylgja lögum sem við höfum sett. Hér voru sett lög árið 2016 sem fólu í sér mikla réttarbót en stjórnvöld hafa ekki verið að fylgja þeim, hafa bara beitt þeim með ólögmætum hætti sem hefur leitt til mikillar tregðu í kerfinu, til tafa á málum, mikilla þjáninga og leitt til þess að Útlendingastofnun hefur verið gerð afturreka með margar ákvarðanir og úrskurði, jafnvel kærunefndin fyrir dómstólum. Það er tilefni þessa frumvarps. Það er til að lögfesta ólögmæta framkvæmd Útlendingastofnunar. (Forseti hringir.) Ég held að fyrsta skrefið til úrbóta í þessum málaflokki væri að Útlendingastofnun færi að gildandi lögum en ekki þeim lögum sem þeim, eða ráðherra, finnst að eigi að gilda.