Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:02]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Nú á dögunum birti Ríkisútvarpið frétt þar sem fjallað var um þungar áhyggjur Rauða krossins af jaðarsettum hópi hælisleitenda. Þessi frétt var undir fyrirsögninni „Kerfisútlagar“. Þetta fólk, sem er um 64 að tölu, sem yfirvöld hafa endanlega synjað um vernd en er fast hér á landi af því að lagaflækjur koma í veg fyrir að hægt sé að vísa því úr landi. Flest þeirra eru frá Nígeríu og Írak og ástæðurnar fyrir því að ekki er hægt að vísa þeim úr landi eru margvíslegar, t.d. skortur á stjórnmálalegum tengslum við lönd, neitun upprunaríkja að taka við fólkinu, skortur á ferðaskilríkjum og margt fleira.

Kerfið er að segja nei. Fólkið er án kennitölu, flest án gildra ferðaskilríkja, mörg búin að vera hér jafnvel í fimm ár, af því að Covid stoppaði allt líka. Þetta fólk, af því það fær ekki kennitölu sem, eins og hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir benti á, er fyrsta íslenska orðið sem þau læra, fær ekki að opna bankareikning og fær sjaldnast atvinnuleyfi. Það fær ekki að ganga í skóla eftir 18 ára aldur og hefur einungis aðgengi að bráðaþjónustu í heilbrigðiskerfinu. Þá kom fram í frétt Ríkisútvarpsins að Rauði krossinn óttast að börn þeirra sem fæðast hér séu í reynd ríkisfangslaus. Þetta er t.d. fólkið sem með þessu frumvarpi mun verða hent út á götuna og sagt að sjá um sig sjálft. Rökin hjá ráðuneytinu eru þau að ef við hendum þeim út á götuna þá hljóti þau að fara sjálf úr landi. En maður spyr sig: Hvernig ættu þau að geta það? Þau hafa ekki skilríki, þau hafa ekki peninga, þau mega ekki vinna en samt eiga þau að koma sér úr landi ef við hendum þeim út á götuna.

Eins og kom fram í fréttinni þá upplifir þetta fólk sig hornreka í kerfinu, eins og ein þeirra orðaði, með leyfi forseta: Stundum líður mér eins og heimurinn hati mig. Hún og aðrir í þessum hópi viðurkenna að hugsunin um að enda þetta allt með því að svipta sig lífi hafi ítrekað leitað á þau. Já, frú forseti, þetta er það fólk sem við virðumst vilja henda út á götuna eins og við séum ekki með nóg af heimilislausu fólk á götunni nú þegar. Hæstv. ríkisstjórn, hæstv. ráðherra og hv. þingmenn stjórnarflokkanna vilja hreinlega senda þetta fólk út á gaddinn.

Ég spyr, frú forseti: Ef þetta frumvarp, þar sem þessum 64 einstaklingum er einfaldlega hent út á götuna, nær fram að ganga eru þá hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar einfaldlega að hrinda þessu fólki fram af hengibrúninni? Viljið þið, hv. þingmenn, hafa það á samviskunni? Ég segi nei.