132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[17:34]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er kannski merkileg tilviljun að undanfarnar vikur hef ég lesið í fréttum um óskaplegan skandal hjá kóreskum vísindamanni sem falsaði niðurstöður og hjá norskum vísindamanni sem gerði hið sama. Af hverju eru menn hneykslaðir á þessu? Vegna þess að þessir menn fölsuðu mynd okkar af veröldinni. Þeir fölsuðu mynd okkar af raunveruleikanum og því sem við ætlumst til að vísindamenn geri.

Þess vegna endurtek ég að ef minnsti vafi leikur á um þessar niðurstöður og það sem hv. þingmaður nefnir verður hv. heilbrigðis- og trygginganefnd sem ég nú sit í að fá þetta mál til umsagnar og hún verður að fá færustu vísindamenn innan lands og utan til að staðfesta það sem hér er rætt um, eða hafna því, þannig að við setjum ekki lög á grundvelli rangra upplýsinga.