132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[17:42]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur ítrekað rætt hér eina rannsókn frá 1998. Þá finnst mér merkilegt að hann hafi ekki dregið fram í umræðu um þá rannsókn fréttatilkynningu sem WHO, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, sá sig knúna til að senda út. Tóbaksiðnaðarfyrirtæki notaði ásamt andstæðingum tóbaksvarna þessa rannsókn ítrekað í þeirri viðleitni sinni að grafa undan tóbaksvörnum, sérstaklega aðgerðum tengdum reyklausum veitinga- og skemmtistöðum. Ég vil, með leyfi forseta, vitna hér í fréttatilkynninguna sem ég bið þingmanninn að kynna sér. Þar kemur fram að rannsóknirnar hefðu verið rangtúlkaðar og að þarna hefði einmitt komið fram að líkur á lungnakrabbameini ykjust um 16% hjá reyklausum ef makar þeirra reyktu og að ætla mætti að aukningin væri um 17% hjá þeim sem búa við óbeinar reykingar á vinnustað.

Ef ég vitna hér síðar í fréttatilkynninguna er haft eftir forstjóra krabbameinsrannsóknastofnunar WHO að þau séu stolt af þeim vísindalegu rannsóknum sem þessi stofnun hafi staðið að og hafi miklar áhyggjur af röngum og villandi yfirlýsingum sem nýlega hafi komið fram í fjölmiðlum. Það var einmitt engin tilviljun að þessar röngu upplýsingar og ályktanir sem dregnar voru af rannsókninni voru dregnar fram í umræðum fyrir reyklausa daginn í Bretlandi og um það leyti sem áformað var að gefa út skýrslu bresku vísindanefndarinnar um tóbak og áhrif þess á heilbrigði.

Mér finnst rétt, úr því að svo mikið er búið er að vitna í þessa rannsókn, að þetta sé þá dregið hér fram því að þvert á móti bar niðurstöður þessarar rannsóknar að sama brunni og allar aðrar rannsóknir sem vitnað hefur verið til í umræðunni og í greinargerðinni með frumvarpinu.