133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

framhald umræðu um RÚV.

[10:52]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Þetta er merkilegur flótti þeirra ágætu framsóknarmanna sem hér tala. Fyrst kemur hæstv. viðskipta- og iðnaðarráðherra og heldur eina lengstu ræðu sem haldin hefur verið lengi undir þessum dagskrárlið, þar sem tilkynnt er að Framsóknarflokkurinn hafi ekki lengur sjálfstæðan vilja í menningar- og menntamálum, heldur sé það hæstv. menntamálaráðherra sem fari með allt það umboð.

Kemur ekki síðan hinn ágæti hv. þm. Jón Kristjánsson og ber það upp á stjórnarandstöðuna í heild sinni að hún sé á leið í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. Ég spyr, hvað með Framsóknarflokkinn? Gerir hv. þingmaður ekki ráð fyrir að Framsóknarflokkurinn verði til eftir næstu kosningar, eða hvað? Ég get svarað hv. þingmanni mjög skýrt. Það hefur ekki staðið til af hálfu stjórnarandstöðunnar að fara í stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn. (Gripið fram í.)

En það er hins vegar algjörlega klárt, yfirgjammari en þú varst útnefndur hér í gær, hv. þingmaður, að ef einhver stjórnarandstöðuflokkur lendir í þeirri klípu að þurfa að fara að semja við Sjálfstæðisflokkinn, þá verður alveg augljóst að þetta mál hlýtur að verða eitt af átakamálunum í því stjórnarsamstarfi. Sama hvaða stjórnarandstöðuflokkur á í hlut. Það er einfalt mál.

Þess vegna, hv. þingmaður, viljum við fara með gildistímann fram yfir kosningar vegna þess að þá er miklu auðveldara fyrir nýja ríkisstjórn að koma að málinu.

Það var hins vegar athyglisvert hjá hæstv. menntamálaráðherra, sem nú er enn einu sinni horfin úr salnum, að tala um að stjórnarflokkarnir, ágætt hæstv. ráðherra, þú ert þarna, hafi gert tilboð um fjölmiðlafrumvarpið sem væri tóm vitleysa að mati hæstv. ráðherra. Vegna þess að núna þegar sambærilegt tilboð kemur af hálfu stjórnarandstöðunnar, þá er það allt í einu tóm vitleysa sem segir auðvitað um leið að tilboð stjórnarflokkanna varðandi fjölmiðlafrumvarpið var að mati hæstv. menntamálaráðherra tóm vitleysa.

Er það ekki það sama og við segjum og er líklega staðfesting á því (Gripið fram í.) að frumvarp hæstv. ráðherra um Ríkisútvarpið er tóm vitleysa.