138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[22:29]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það má ekki skilja ummæli mín svo að ég hafi verið að gera lítið úr Skúla Eggert Þórðarsyni sem er væntanlegur ríkisskattstjóri, sómamaður. Það hefur komið fram á fundum nefndarinnar að hann er óumdeildur nokkuð og vandaður embættismaður. Ég veit ekki til þess að ég hafi neitt vegið að æru hans í umræðunni.

Svo bið ég náttúrlega líka frú forseta forláts ef ég hef verið helst til stóryrtur áðan í andsvari mínu. Ég hef ekki verið þekktur að því hingað til og mér eiginlega fyrirmunað að skilja hvað ég sagði sem særði blygðunarkennd frú forseta. En það að málið sé vanreifað er óumdeilt hjá umsagnaraðilum sem fóru vandlega yfir málið. Þetta mál hefði þurft að vinna miklu betur og reyndar heyrði ég ekki þingmanninn tala um að þetta væru dæmi um fyrirmyndarvinnubrögð, enda á ég eftir að sjá einhvern stjórnarþingmann koma upp og tala um að það sem hér (Forseti hringir.) var gert hafi verið til fyrirmyndar.