138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[00:44]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Illugi Gunnarsson talar um öflugt lífeyrissjóðakerfi Íslendinga og er það mikið happ að við vorum það forsjál að við höfðum byggt upp þetta öfluga lífeyrissjóðakerfi. Það byggir á hugmyndinni um þriggja stoða lífeyriskerfi sem, eins og hv. þingmaður veit, grundvallast á almannatryggingakerfinu með ellilífeyri, lífeyriskerfinu, sem er sameignarsjóður, og séreignarsparnaði. Þetta er hluti af því að framtíð okkar er sæmilega björt því að þetta er einn af aðalstyrkleikum okkar hagkerfis. Og þrátt fyrir þær skuldir sem ríkissjóður situr uppi með er tekjuöflun trygg í framtíðinni þegar fólk fer á eftirlaun og færra yngra fólk verður á vinnumarkaði. Þetta er hin stóra áskorun annarra Evrópuþjóða, að það verða færri og færri á vinnumarkaði miðað við þá sem eru utan hans og þarf að framfleyta úr sameiginlegum sjóðum. Ég vil því biðja hv. þingmann að tala varlega þegar hann talar af slíkum léttleika um þennan mikilvæga styrkleika í hagkerfinu sem gerir okkur kleift að standa undir þeim erfiðu skuldbindingum sem liggja á ríkissjóði og þar með þjóðinni núna.