140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

rammaáætlun í orkumálum.

[15:25]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það var einmitt þess vegna sem við settum af stað vinnu við rammaáætlun, til að koma skikki á þessi mál til lengri tíma, en brugðið hefur verið út af þeirri leið sem var lagt upp með, þ.e. að málið kæmi frá fagnefndum sem um það fjölluðu, þar sem fagleg vinnubrögðum áttu að vera ástunduð af hópi sérfræðinga á hverju sviði, inn til þingsins til að taka við þeirri vinnu sem ráðherrann vitnar í að sé svo mikil.

Það er augljóst mál öllum sem eitthvað þekkja til að hér eru pólitísk hrossakaup í gangi, hrossakaup um það hvar eigi að raða niður virkjanakostum vegna þess að í ríkisstjórnarflokkunum eru svo mismunandi sjónarmið uppi um þá leið.

Ég skil hæstv. ráðherra þannig að ekkert sé til í fullyrðingum um að plaggið komi nánast fullunnið á borð ríkisstjórnarinnar og eigi að fara þannig í gegnum þingið í sátt við þingflokkana, ríkisstjórnarflokkana, heldur fái það eðlilega þinglega meðferð.

Þá spyr ég hæstv. ráðherra: (Forseti hringir.) Hvenær megum við eiga von á að fá plaggið, eða rammaáætlunina, til þingsins í þinglega meðferð? Þetta mál átti að klárast á síðasta ári. Það liggur fyrir (Forseti hringir.) í stjórnarsáttmálanum að engin ákvörðun um frekari virkjanir verður tekin fyrr en rammaáætlun er afgreidd. Það er augljóst mál (Forseti hringir.) ef málið dregst mikið úr því sem komið er að rammaáætlun verður ekki afgreidd á þessu þingi með tilheyrandi afleiðingum fyrir þjóðarbúið.