140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

fækkun refs og minks.

247. mál
[17:21]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar. Þetta er nokkuð algengt umræðuefni hér og árvisst og mikilvægt að halda þessum vangaveltum öllum til haga.

Varðandi fyrstu spurningu hv. þingmanns um áætlanir í ráðuneytinu er það svo að í grunninn er um nokkuð ólíkar tegundir að ræða. Minkurinn er innflutt tegund sem slapp úr haldi og veldur margvíslegu tjóni. Það er opinber stefna að halda honum í skefjum og lágmarka tjón af völdum hans og útrýma honum úr íslenskri náttúru sé þess nokkur kostur.

Tilraunaverkefni um svæðisbundna útrýmingu minks í Eyjafirði og á Snæfellsnesi er nýlega lokið og umsjónarnefnd verkefnisins stefnir að því að skila endanlegum niðurstöðum og tillögum um áframhald innan nokkurra vikna. Það virðist ljóst að staðbundið veiðiátak geti skilað verulegri fækkun og jafnvel útrýmingu minks á viðkomandi svæðum en að útrýming minks á landsvísu sé mun erfiðari.

Varðandi ref er stefna yfirvalda í sjálfu sér ekki að útrýma honum heldur að draga úr tjóni af völdum hans. Líffræði íslenska tófustofnsins er að sumu leyti frábrugðin líffræði annarra tófustofna og tófur eru taldar vera í útrýmingarhættu í Evrópu utan Íslands. Engar sambærilegar áætlanir eru hjá stjórnvöldum um fækkun refs og varðandi mink.

Um þann hluta fyrirspurnar hv. þingmanns er varðar líffræðilegt mat á stofnunum mætti sjálfsagt skrifa löng og lærð rit en hér verður látið nægja að stikla á stóru. Vöktun á íslenska refastofninum hefur staðið yfir undanfarin 32 ár og var upphaflega í höndum Páls Hersteinssonar sem hélt henni áfram allt þar til hann lést þann 13. október síðastliðinn. Hægt er að meta ástand stofnsins lengra aftur í tímann með því að skoða veiðitölur sem ná aftur til ársins 1958. Samkvæmt veiðitölum fór tófum fækkandi á árunum eftir 1958 og er stærð stofnsins talin hafa verið í lágmarki á árunum 1973–1975.

Þegar Páll hóf að reikna stofnstærð út frá aldurs-afla aðferðinni svokallaðri reiknaðist honum til að stofnstærðin árið 1979 hafi verið um 1.300 dýr á Íslandi en síðan þá hefur stofninn margfaldast að stærð og var áætluð stærð hans 11 þús. dýr haustið 2009. Rétt er þó að geta þess að í þessu samhengi er gert ráð fyrir háum skekkjumörkum eða um 3 þús. dýrum. Burt séð frá þeim er um verulega fjölgun að ræða.

Stærð íslenska minkastofnsins er hins vegar næsta óþekkt. Náttúrustofa Vesturlands hefur í þrígang metið fjölda minka á Snæfellsnesi, haustið 2001, 2002 og 2006, og var fjöldinn í öll þau skipti innan við þúsund dýr, 500–900 dýr. Þetta eru einu stofnmælingarnar í heiminum á þessari tegund á jafnstóru svæði enda er tegundin sérlega erfið viðureignar hvað þetta varðar. Árlegur fjöldi veiddra minka er talinn endurspegla sveiflur í stofninum en segir þó lítið til um stærð hans.

Á árunum 2004–2010 dróst minkaveiðin mjög hratt saman. Orsakir sveiflnanna eru að mestu ókunnar en nýlegar greiningar á afla veiðimanna sýna að á allra síðustu árum hefur líkamsástand minka versnað mikið og frjósemi minnkað verulega. Það er ólíklegt að minkaveiðar leiki þar veigamikið hlutverk heldur komi til einhverjir aðrir þættir.

Varðandi kostnað ríkisvaldsins af fækkun refs og minks og þróun þeirra framlaga frá árinu 2006 er það svo að kostnaðurinn nam tæpum 17 millj. kr. við veiðar á mink árið 2006, en 16,2 millj. kr. til veiða á ref. Til samanburðar á árinu 2011 var veitt 18 millj. kr. til veiða á mink en það ár var fellt niður framlag ríkisins til niðurgreiðslu refaveiða sem nam 17 millj. kr. á árinu 2010. Skal líka tekið fram að ekki er gert ráð fyrir framlagi ríkisins á yfirstandandi ári. Samanlagt nam kostnaður ríkisins vegna minkaveiða 103 millj. kr. á árunum 2006–2011 en 82 millj. kr. til refaveiða. Auk þessa var varið 152 millj. kr. í tilraunaverkefnið sem ég gat um áðan, um svæðisbundna útrýmingu minks á Snæfellsnesi og við Eyjafjörð.

Virðulegur forseti. Ég hef ekki tíma til að fara í smáatriðum yfir allar spurningar hv. þingmanns en kem væntanlega að því í síðara svari mínu. Heildarkostnaður sveitarfélaga vegna veiða á mink nam 34 millj. kr. árið 2006 en 58,8 millj. kr. vegna veiða á ref. Á árinu 2010 vörðu sveitarfélögin 24 millj. kr. til minkaveiða en 76 millj. kr. til veiða á ref.

Hv. þingmaður spyr um samanlagðan heildarkostnað sveitarfélaga og á árunum 2006–2010 var kostnaður þeirra vegna minkaveiða 157 millj. kr. en 351 millj. kr. vegna refaveiða. Virðulegur forseti. Ég kem væntanlega að seinni spurningu þingmannsins í seinna svari mínu.