140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

mengunarmælingar í Skutulsfirði.

449. mál
[17:58]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir góða umræðu, þó að hún hafi ekki verið mjög fjölmenn, en hún er mikilvæg. Díoxín er auðvitað mjög erfitt efni vegna þess að það safnast upp í náttúrunni. Þess vegna lagði ég mjög mikla áherslu á það þegar þetta tiltekna mál kom upp að við næmum ekki staðar við að kanna stöðu mála bara í kringum Funa, heldur miklu frekar að við færum víðar um land og könnuðum fleiri mögulegar uppsprettur díoxína, þar á meðal stóriðjuna og áramótabrennurnar.

Ég tek undir með hv. þingmanni að ég tel fullt tilefni til að setjast niður og læra af þessu máli, en gögnin eru núna fyrir hendi. Þau liggja fyrir eftir góða vinnu Umhverfisstofnunar. Það er auðvitað lykilatriði, sérstaklega þegar um er að ræða orðspor sem er alltaf viðkvæmt í allri umræðu, að við vitum nákvæmlega hvert málið er og hverjar mælitölurnar eru vegna þess að gott orðspor lifir ekki lengi ef við missum það í kæruleysi. Það dugði ekki að mæla á þessum eina stað, við fórum víðar. Umhverfisstofnun hélt afar vel á því máli.

Ég þakka hv. þingmanni enn fyrir að vekja máls á þessu og vakta þetta með slíkum myndarskap gagnvart okkur ráðherrunum þremur og er sammála honum um að þetta sé mál til að læra af, ekki bara varðandi þekkingu á uppsöfnun díoxína heldur líka um samskipti almennings og stjórnvalda að því er varðar mengun.