141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:54]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég tek undir það sem hv. þingmaður kom inn á í upphafi, hvernig fjárlagafrumvarpið er sett upp og hversu oft er erfitt að átta sig á því hvað er að gerast þar ef maður á ekki sæti í hv. fjárlaganefnd. Nógir eru nú erfiðleikarnir fyrir hv. þingmenn sem sitja þar í minni hlutanum vegna þeirra upplýsinga sem kallað er eftir og koma ekki fram.

Í frumvarpinu sjálfu, þegar það er lagt fram, stendur nefnilega svolítið merkilegt. Við þekkjum þær breytingar sem gerðar eru á Stjórnarráðinu, en þar er texti undir þeim ráðuneytum sem verið var að sameina. Ég vil vitna, með leyfi forseta, orðrétt í textann í frumvarpinu sjálfu:

„Með því að gera breytingarnar við 2. umr. fæst heildaryfirlit yfir nýja skipan og þingmönnum gefst kostur á að ræða viðeigandi breytingar á fjárheimildum efnislega. Þá verður meðferð fjárlagafrumvarpsins í meðförum Alþingis markvissari þar sem allur samanburður á milli ára og við fyrri ár er auðveldari.“

Þetta var brotið, þessi breyting var ekki gerð fyrir 2. umr. heldur var útbúinn bandormur við 3. umr. Þessi texti sem stendur hér í sjálfu frumvarpinu sem lagt er fram er brotinn. Markmiðið, þ.e. að gera umræðuna markvissari og gegnsærri, er brotið. (Gripið fram í.) Ég tek því undir það sem hv. þingmaður sagði: Gæti það verið vegna þess að menn vilja hafa umræðuna á þessum nótum? Ég spyr mig líka stundum út frá fjölda þeirra stjórnarliða sem taka þátt í umræðunni: Af hverju forðast þeir umræðuna um fjárlög á hverju einasta ári? Það vantar ekki að þeir komi hér í atkvæðaskýringar undir einstaka liðum og hampi hv. ríkisstjórn og stjórnarstefnunni en þeir sjást ekki hér í umræðunni — örfáir jú, ég ætla ekkert að gera lítið úr þeim sem taka þátt í henni, en mjög fáir almennir þingmenn sem ekki eiga sæti í fjárlaganefnd.