141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:41]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum í 3. umr. um fjárlögin. Áður en ég kem inn á svör hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar hér á undan ætla ég aðeins að koma inn á ferlið og hver vinnubrögðin eru.

Við upplifðum það hér fyrir nokkrum missirum að hæstv. atvinnuvegaráðherra kom hingað í ræðustól undir störfum þingsins og sagði að nú væri stjórnarandstaðan búin að tala svo mikið í málinu að það yrði jafnvel mjög erfitt fyrir ríkissjóð að standa skil á launagreiðslum 1. janúar. Það ber vott um fáránlegan málflutning hæstv. ráðherra á þeim tíma. En síðan þegar málið kemur inn í hv. fjárlaganefnd stóð til að breytingartillögur meiri hlutans yrðu kynntar og teknar út á föstudegi. Það var ekki gert. Nefndarmenn voru beðnir um að vera í startholunum því að til stæði að gera það seinni partinn. Það var ekki gert. Þá stóð til að það yrði gert á laugardeginum. Það var ekki gert. Síðan var hefðbundinn fundur hv. fjárlaganefndar á mánudeginum. Þá átti að afgreiða tillögurnar endanlega. Það var ekki heldur gert, lengra var ríkisstjórnin og hv. meiri hlutinn ekki kominn í vinnu sinni.

En síðan gerðist nokkuð. Á þriðjudagsmorgninum var málið tekið út með breytingartillögum meiri hlutans en á miðvikudeginum varð að taka málið aftur inn í nefndina og það afgreitt þaðan aftur vegna breytinga sem gerðar voru og sneru að Landspítalanum. Það er nú allt vandaða vinnuferlið. Tillögurnar voru kynntar á fundi hv. fjárlaganefndar og teknar út nánast samstundis. Það kalla hv. þingmenn góð vinnubrögð. Því hafna ég alfarið. Það voru engar forsendur fyrir hv. þingmenn í fjárlaganefnd, alla vega ekki þá sem eru í minni hlutanum, til að geta lagt nokkurt mat á þær tillögur sem gerðar voru. Þeim gefst ekkert ráðrúm og þeir fengu engar upplýsingar.

Þá langar mig að árétta eitt. Það var nokkuð merkilegt að upplifa það um daginn þegar hv. þm. Kristján Þór Júlíusson ræddi við hæstv. fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma. Ég verð að viðurkenna að mér ofbauð sá hroki sem kom fram í svari hæstv. ráðherra, mér var algerlega misboðið. Óskað var eftir því að svar bærist varðandi upplýsingar sem nefndin sóttist eftir. Ráðuneytið hafði að hámarki sjö daga til að svara, en vikuna eftir að þeim fresti var lokið voru fjáraukalög afgreidd á Alþingi. Svar ráðherra kom 27 dögum of seint, svo við höldum öllu til haga fyrir hæstv. ríkisstjórn, ekki veitir af. Þar segir: Þar sem meðferð fjáraukalagafrumvarpsins er lokið er engin ástæða til að við séum að vinna með þessi gögn. Þannig er umhverfið.

Hvers vegna skyldu nú hv. þingmenn í minni hlutanum óska eftir þessum gögnum? Jú, til að vinna þá vinnu sem okkur er falið að vinna. Það hefur nefnilega komið fram að sum ráðuneyti hafa óskað eftir beiðnum, t.d. í fjáraukalögin, bara til að reyna að standast þann rekstur sem fyrir er. Við köllum eftir upplýsingum til að vanda ákvarðanatöku okkar. Nei, okkur er synjað um það.

Það hefur auðvitað komið fram á fundum hv. nefndar að til að mynda hv. þm. Lúðvík Geirsson, sem er fyrrverandi formaður Blaðamannafélags Íslands, taki þátt í svona skollaleik og eins hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson. Síðan koma þessir hv. þingmenn hér og tala um hversu mikilvægt sé að efla upplýsingalöggjöfina. En þegar kemur að þeirra eigin verkum stendur ekki til að láta hv. þingmenn hafa aðgang að þeim upplýsingum sem þeir þurfa að fá.

Ég var í andsvörum áðan við hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson. Hvaða upplýsingar hefur minni hlutinn í fjárlaganefnd til að mynda fengið varðandi verkefnið svokallaða, Hús íslenskra fræða, í öllum þeim hringlandahætti sem verið hefur í því máli? Verkefnið er kynnt í hv. fjárlaganefnd og sagt að það kosti 3,4 milljarða, í rauninni 3,7 af því að þegar er búið að leggja fram í 300 millj. kr. kostnað. Skipta átti verkinu niður á þrjú ár. Ríkissjóður átti að borga þrisvar sinnum 800 millj. og happdrættið átti að borga þrisvar sinnum 330 millj. kr. Síðan þegar málið er kynnt og tekið út úr nefndinni er búið að breyta því þannig að ríkissjóður á að borga 467 millj. kr. Málinu er kippt út við 2. umr. vegna breytingartillagna meiri hlutans og fer aftur inn í hv. fjárlaganefnd. Hver er afgreiðslan hjá meiri hlutanum við 3. umr.? Jú, hún er sú að núna skuli ríkissjóður borga 150 millj. af framlagi sínu í þá framkvæmd. Eftir standa þá 2 milljarðar og 250 millj. kr. fyrir þá sem taka við. Þeir þurfa að standa skil á því á næstu tveimur árum, árin 2014 og 2015, vegna þess að núverandi stjórnarmeirihluti ætlar að skreyta sig með því að fara í skóflustunguaðgerðir. Hér eru kosningamálin, við tökum skóflustungur og síðan sjá aðrir um framkvæmdina. Þannig eru nefnilega vinnubrögðin. Ég hef enga skýringu fengið á því hvers vegna það er gert með þessum hætti, enga.

Ég hef heldur ekki fengið skýringar á því og það væri ágætt ef hv. þingmenn eða hæstv. ráðherra mundu upplýsa um það hér hvort búið sé að kanna það mjög rækilega hvort þeir sem eiga að koma með mótframlagið, eins og happdrættið, geti ekki örugglega staðið skil á því eða hvort gengið sé mjög nærri þeim stofnunum með því að þær eigi að standa skil á tvöföldu framlagi á einu ári. Það eru forkastanleg vinnubrögð.

Síðan koma hv. þingmenn og segja: Þetta er mjög vel unnið mál. Það er búið að vera 100 daga í fjárlaganefnd. En eru það bara dagarnir sem telja varðandi meðferð málsins? Nei, aldeilis ekki. Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með það sem snýr að tekjuhlið frumvarpsins. Hæstv. forseti tók þátt í þeirri umræðu í fyrra vegna þeirra þingskapabreytinga sem gerðar voru. Þá var það einhvern veginn í lausu lofti hjá sumum hvort nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd ættu að skila inn umsögn til fjárlaganefndar um tekjuhlið frumvarpsins, það væri kannski þeirra eigin ákvörðun. Það var ekki skilningur allra. Þá taldi ég að það mundi ekki gerast aftur að menn skiluðu ekki greiningu á tekjuhliðinni til hv. fjárlaganefndar.

Sent var bréf til efnahags- og viðskiptanefndar 27. október síðastliðinn og beðið um að nefndin skilaði niðurstöðu eigi seinna en 7. nóvember. Enn hefur ekkert svar borist en auðvitað er hv. efnahags- og viðskiptanefnd vorkunn þar sem ekki er það langt síðan mælt var fyrir svokölluðum bandormi, sem er tekjuöflunarhluti frumvarpsins og snýr að þeim breytingum sem gerðar eru. Eigi að síður hefur ekkert svar borist enn þá og tekjuhlutinn er órýndur. Þá er mjög merkilegt að skoða breytingartillögu við fjárlögin sem hæstv. ráðherra dreifði. Það er nánast einsdæmi að hæstv. ráðherra dreifi breytingartillögum um að lækka tekjuhliðina um 575 millj. kr. út af virðisaukaskatti með því að fresta gildistöku fyrirhugaðrar hækkunar á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu. Hvernig stendur á því? Jú, það sem kemur fram í fjölmiðlum blasir auðvitað við öllum. Það er vegna þess að hæstv. ráðherra hefur verið að semja við þingmenn Bjartrar framtíðar. Þeir settu niður hælana og sögðu: Þetta munum við ekki samþykkja. Þá verður hæstv. ráðherra að nota tíma sinn í hrossakaup við þessa tvo hv. þingmenn. Það er bara þannig, það er ekki flóknara en það. Þess vegna kemur þessi tillaga hingað. Það eru algerlega óafsakanleg vinnubrögð.

Síðan og ekki síst koma hv. þingmenn Bjartrar framtíðar hingað þegar þeir gefa sér tíma til og gagnrýna hv. þingmenn minni hlutans sem taka þátt í þessum umræðum og kalla eftir upplýsingum. Hv. þingmenn Bjartrar framtíðar skilja bara ekkert í því. Þeir ættu kannski að líta sér aðeins nær því að þeir sitja við ríkisstjórnarborðið og standa í samningum og hafa þar af leiðandi aðgang að þeim upplýsingum sem hv. þingmenn minni hlutans kalla eftir og hafa ekki fengið. Það eru staðreyndir málsins. Slík vinnubrögð eru algerlega óafsakanleg að mínu mati. Svo leyfa hv. þingmenn stjórnarliðsins sér að koma hingað upp og segja: Mjög vönduð vinnubrögð. Því miður er það ekki þannig.

Síðan langar mig aðeins að koma inn á dulin útgjöld í fjárlögunum sem við vitum öll um. Það er klárlega hægt að segja að þau séu einhvers staðar á bilinu 15–20 milljarðar, að lágmarki. Fyrir því eru margar ástæður. Stærsti liðurinn snýr að Íbúðalánasjóði. Þar er lagt til að setja 13 milljarða inn í sjóðinn með því að gefa út skuldabréf og færa vaxtakostnaðinn inn í rekstur ríkisins af því að setja þetta inn. Komið hefur fram á fundum hv. fjárlaganefndar að forsvarsmenn Íbúðalánasjóðs hafa sagt: Við metum afskriftaþörfina að lágmarki 6 milljarða fyrir árin 2012 og 2013 þegar búið er að taka til. Þess vegna segi ég: Það er nauðsynlegt að viðurkenna þann halla sem hér er. En til þess að vera sanngjarn er hallinn á Íbúðalánasjóði ekki núverandi ríkisstjórn að kenna, nei, það er ekki þannig. En það er sameiginlegt verkefni okkar allra að takast á við hann. Með þessum hætti er verið að dylja hallann að mínu mati. Það vantar klárlega 20 milljarða inn í reksturinn. Ef við sleppum B-deildinni, sem eru tæpir 400 milljarðar, og tökum A-deildina þar sem liggur fyrir að hækka þarf iðgjöldin um 4% — launagreiðslur ríkissjóðs eru einhvers staðar í kringum 100 milljarða. Ætli það vanti ekki 4 milljarða þarna inn í? Ég velti því fyrir mér. Ég ætla að setja það í stærra samhengi: Hvers vegna erum við með dulinn halla? Sýnum við reksturinn eins og hann er? Nei. Við þurfum að bæta við lífeyrisgjöldin til að sýna raunrekstur ríkissjóðs núna. En því miður förum við þá leið að ýta því aðeins á undan okkur og láta aðra um að leysa það, sem er auðvitað þvert á það sem stóð til að gera þegar menn voru með svokallaðan uppsafnaðan halla í B-deildinni. Það fjall er enn þá fyrir aftan okkur, tæpir 400 milljarðar. Í A-deildinni, sem átti að vera sjálfbær, er neikvæð staða nú orðin um 67 milljarðar þannig að við sýnum ekki raunrekstur ríkissjóðs. Því verður að breyta. Mér er nákvæmlega sama hvaða flokkar stjórna hverju sinni, það verður að gera.

Á sama tíma tökum við séreignarsparnaðinn. Mér finnst mjög óábyrgt að fara að eins og gert er. Athugasemdir mínar og okkar í 1. minni hluta snúa að því að horfa raunsætt á reksturinn. Við fáum það staðfest, og við höfum margoft bent á það, þegar við skoðum niðurstöðuna úr því sem áætlað er að komi út úr fjárlögunum, eftir fjáraukalög nota bene sem samþykkt eru í lok hvers árs, þá er niðurstaðan á ríkisreikningi alltaf allt önnur þó að við tökum bara tvö síðustu ár. Sleppum því á undan og hlífum ríkisstjórninni við því, tökum bara síðustu tvö árin þar sem mismunurinn var 49 milljarðar á árinu 2011 og rúmir 42 milljarðar á árinu 2010. Það er vegna þess að ekki horfst í augu við vandamálin sem fyrir hendi eru.

Síðan er mjög merkilegt, og það kom reyndar fram í andsvari í dag hjá hv. þingmanni og formanni nefndarinnar, sem snýr að þeirri atvinnuuppbyggingu sem fyrirhuguð er á Bakka. Staðið verður við það samkomulag segir hv. þingmaður. Gott og vel. Þess sér ekki stað en þeir 2,6 milljarðar sem vantar þar munu þá væntanlega koma inn í fjáraukalögin þegar búið verður að ganga frá samningunum í vor. Þar er enn einn staðurinn sem vantar inn í því að ef það verður ekki gert vitum við það öll að þá mun hagvaxtarspáin ekki ganga eftir sem frumvarpið byggir á að öðru leyti. Þar er reiknað með því að stóriðjuuppbyggingin eða sú uppbygging sem þar er fyrirhuguð fari fram á seinni hluta árs 2013. Það er enn eitt dæmið um getuleysi hæstv. ríkisstjórnar í efnahagsmálum, það blasir við. Mistekist hefur að skapa hér fleiri störf en gert hefur verið og í raun hafa þau verið frekar fá.

Hver er niðurstaðan núna? Nú ætlar hæstv. ríkisstjórn að fara enn eina ferðina í svokallaða hækkun á óbeinum sköttum sem hækkar verðlagið eða vísitöluna sem fer beint inn í lán heimilanna. Afrek hæstv. ríkisstjórnar með skattkerfisbreytingum á þessu kjörtímabili hafa hækkað lán heimilanna um tæpa 28 milljarða kr. En enn skal haldið áfram. Verðlagsbreytingarnar sem eiga að ganga hér eftir munu þýða að lán heimilanna munu hækka um u.þ.b. 6–8 milljarða. Eru heimilin aflögufær? Nei, þau eru sko ekki aflögufær. Það er kannski ástæðan fyrir því að forustumenn launþegahreyfingarinnar, eins og hjá ASÍ, hafa stigið fram með kröftugum hætti eins og á undanförnum dögum. Það ríkir algert skilningsleysi hjá hv. þingmönnum og hæstv. ríkisstjórn.

Það verkefni sem fram undan er er að greiða niður skuldir ríkissjóðs, það er lykilatriði. Er ætlunin að gera það? Nei, það er ekki ætlunin. Hins vegar er ætlunin að selja eignir til að halda áfram að setja inn í rekstur, sem er algerlega galið miðað við þær forsendur fyrir eru. Skuldsetning ríkissjóðs er upp undir 2.000 milljarðar kr. og vaxtagreiðslur eru áætlaðar um 84 milljarðar á næsta ári þrátt fyrir mjög lágt vaxtastig á erlendum mörkuðum, þrátt fyrir gjaldeyrishöft. Áætlaðar vaxtagreiðslur ríkissjóðs á næstu fjórum árum eru 400 milljarðar kr. Það er brýnasta verkefnið sem ráðast verður í.

Þess vegna segi ég enn eina ferðina og þreytist ekki á því: Það verður að setja ákveðnar fjármálareglur fyrir þingið. Það er bráðnauðsynlegt og er undirstrikað í þessum fjárlögum þar sem menn ætla að eyða peningum út og suður í alls konar gæluverkefni í stað þess að snúa sér að þeim vanda sem fyrir er. Það væri nær ef Alþingi hefði sammælst um að hafa ákveðinn útgjaldaramma um hvernig við ætlum að greiða niður skuldir, sama hver stjórnvöldin eru á hverjum tíma væri það forgangsverkefni að greiða niður skuldir. Annars erum við í raun bara að fresta vandanum og kasta honum fram fyrir okkur og láta þá sem taka við seinna, hvort sem það er á næsta kjörtímabili, þar næsta eða því sem kemur þar á eftir, taka við þeim vanda sem við blasir.

Af hverju getum við ekki sett okkur fjármálareglur á Alþingi? Við gerum þá kröfu til sveitarfélaganna að þau geri það. Af hverju getum við ekki gert sömu kröfu til okkar að hafa fjármálareglur sem eru algerlega klárar og kvittar á útgjaldahliðinni. Síðan mundu menn segja: Ókei, það verður að vera svo og svo mikill afgangur. Hann verður auðvitað að vera meiri til að byrja með til að greiða niður skuldirnar. Svo geta menn einhvern veginn trappað það niður eða hvernig sem það er, samkvæmt samkomulagi, hver ríkisstjórnin er á hverjum tíma. Við megum ekki kasta vandamálunum til framtíðarkynslóða. Á sama tíma grípum við til skattkerfisbreytinga sem hækka lán heimilanna. Það eru ekki boðleg vinnubrögð og það er auðvitað staðfesting á því að hæstv. ríkisstjórn hefur algerlega mistekist að skapa hér nægilegan hagvöxt og störf til að fólk geti séð fyrir sér.

Mig langar að koma inn á að minnsta kosti tvö atriði til viðbótar sem snúa að viðsnúningi varðandi uppbygginguna á Landspítalanum. Það olli mér miklum vonbrigðum hvernig staðið var að því máli. Rætt var um að það kæmi inn milli 2. og 3. umr. í hv. fjárlaganefnd. Síðan var málið afgreitt úr hv. fjárlaganefnd til 3. umr. á þriðjudegi en það varð að taka það aftur inn á miðvikudegi og einnig nefndarálit meiri hlutans til að geta sett inn eitt stykki Landspítala með þeim breytingum sem gerðar voru á þeim hugmyndum sem þar lágu frammi. Engin efnisleg umræða var í nefndinni og engar kynningar voru haldnar en á sínum tíma náðist pólitísk samstaða um hvernig vinna bæri málið þvert á flokka. Ég ætla ekki að halda því fram að allir hv. þingmenn hafi verið sammála því en lykilatriðið var það að áður en málið héldi áfram kæmi það til efnislegrar umfjöllunar í hv. fjárlaganefnd og síðan í þingsal Alþingis.

Þess vegna kalla ég eftir þessum upplýsingum svo maður geti tekið ákvarðanir á einhverjum grunni. Maður verður alltaf að geta sér til um allt milli himins og jarðar. Tökum bara dæmi. Þann 12. desember síðastliðinn var vitnað til þess í meirihlutaálitinu að lagt hefði verið fram minnisblað af hálfu velferðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra sem samþykkt var á ríkisstjórnarfundi 30. nóvember, þ.e. 12 dögum áður. Upplýst var í hv. fjárlaganefnd að breyting á forsendum á verkefninu hefði ekki borist hv. fjárlaganefnd. Ég óskaði eftir því og einnig fulltrúar minni hlutans að við fengjum afrit af þessu minnisblaði. Það hefur ekki borist okkur enn, ekki stafkrókur. Samt liggur minnisblaðið fyrir. Hver skyldi vera breytingin á verkefninu? Það var engin smábreyting og þetta er ekki lítið verkefni. Þetta er tugmilljarða verkefni og það er mjög dapurlegt að málin skuli vera sett í þennan farveg. Þar er gert ráð fyrir því að halda áfram með minni hluta framkvæmdarinnar í svokallaðri leiguleið og hins vegar að fara með stærri hlutann inn í ríkisframkvæmdir eða beint undir ríkissjóð, þ.e. að hætta þessu gríska bókhaldi. Ég er mjög sáttur við það. En forsendan fyrir því að halda áfram með spítalabygginguna í heild sinni — jú, gerðar eru athugasemdir hjá hv. þingmönnum meiri hlutans. Það þarf auðvitað að finna því svigrúm í ríkisfjármálunum á næstu missirum með það að markmiði að ná jöfnuði. Ég viðurkenni að miðað við þau verkefni sem við stöndum frammi fyrir er það ekki hægt á næstu missirum eða á næstu árum. Það á að fara leiguleiðina með svokallað bílastæðahús, skrifstofubyggingar og sjúkrahótel, sem er auðvitað alger viðsnúningur á miðað við það sem lagt var upp með. En að hv. þingmenn minni hlutans fái einhverjar upplýsingar um hvernig á þessu stendur eða hvernig og hvort til standi yfir höfuð að fara í aðra framkvæmdina, þ.e. leiguleiðina, með þau þrjú hús sem ég nefndi án þess að vera viss um að geta haldið áfram með hitt verkefnið, höfum við bara ekki hugmynd um. Við höfum ekki fengið nein svör við því. Verklagið er allt með þeim hætti.

Síðan ætla ég að taka Hús íslenskra fræða sérstaklega til umræðu hér, af því að ég er að tala um fjármálareglur, þar sem ríkishlutinn eru 2,4 milljarðar á næstu þremur árum. En nú á að leggja 150 millj. af þessum 2,4, þ.e. þeir sem taka við stjórninni eiga að standa straum af meginþorra framlagsins. Síðan má nefna lög um fæðingar- og foreldraorlof. Hvað er lagt til þar? Jú, að auka það með ákveðnum hætti, án þess að ég ætli að hafa sterkar skoðanir á málinu sem slíku. Á næsta ári aukast útgjöld ríkisins um tæpar 500 millj. en í lok næsta kjörtímabils á að vera búið að auka útgjöldin um 5 milljarða. Hvers konar vinnubrögð eru það? Þess vegna er svo mikilvægt að við setjum okkur fjármálareglur og það á að banna að leggja svona mál fram. Það á að banna að setja væntingar inn í framtíðina sem öðrum ber að standa við. Það eru algerlega óforsvaranleg vinnubrögð að gera það með þeim hætti og sýnir auðvitað mjög óábyrga stjórn á fjármálum ríkisins.

Eitt langar mig að taka fram í lok ræðu minnar sem valdið hefur mér gríðarlega miklum vonbrigðum. Það er þó ekki stærsta málið. Það hefur valdið mér gífurlegum vonbrigðum að rofin skuli hafa verið sú samstaða og svikin loforð, ég leyfi mér að orða það þannig, við meðferðina á svokölluðum safnliðum. Gerð var breyting fyrir rúmu ári síðan þar sem til stóð að færa þessi verkefni til betri vegar. Fólk sækir um styrki alls staðar að af landinu í margvísleg verkefni, sem öll eru mjög mikilvæg, t.d. að fara í einhvers konar uppbyggingu á söfnum. Gerð var breyting og hún var sú að hv. fjárlaganefnd færði safnliðina til ráðuneytanna. Hægt er að rifja upp margar ræður hv. þingmanna sem sáu mikilvægi þess að gera það. Þeir sitja núna í hv. fjárlaganefnd og taka þátt í þeim umsnúningi sem þar er. Það er óþolandi. Það var mikilvægt að taka pólitíkina úr úthlutuninni og setja það mál í faglegan grunn, setja það inn í menningarsamningana, inn í sjóðina sem lög og reglur gilda um, þar sem menn þurfa að svara fyrir úthlutun með efnislegum rökum og fara að stjórnsýslulögum um það hvers vegna þessi fékk pening en ekki hinn. En það var ekki þannig áður þegar safnliðirnir voru í hv. fjárlaganefnd. Þá þurfti meiri hluti hv. fjárlaganefndar á hverjum tíma ekki að rökstyðja neitt því að stjórnsýslulög náðu ekki yfir það. Ég var einn af þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í því að gera þá breytingu. Ég hafði trú á henni og markmiðið var að gera úthlutun faglegri og sanngjarnari þannig að allir sætu við sama borð.

Ég hef tekið margan slaginn í þingflokki mínum þar sem ég hef barist fyrir breyttum vinnubrögðum. Ég tók heils hugar þátt í þeim. Það gerði líka hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir. Við vorum vöruð við: Haldið þið virkilega að þetta fólk muni standa við þessa samninga? Ég hef oft hugsað til þess þegar minn náni samstarfsmaður, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, sagði það við mig. Trúir þú því virkilega að það muni ganga svona? Ég hafði þá trú, ég viðurkenni það, að það yrði gert með þessum hætti.

Eins og ég sagði áðan er þetta ekki stærsta málið á þinginu, en það er enn ein staðfestingin á því að ekki er hægt að treysta þessu fólki fyrir nokkrum sköpuðum hlut. Ég hef sagt það að eftir að ég fór að sjá tillögurnar við 2. umr., sem snúa margar hverjar að útgjöldum og safnliðum, það keyrir svo um þverbak við 3. umr., að ég hef verið dálítið slæmur í bakinu undanfarið. Það er sennilega vegna þess að ég er með svo marga hnífa í bakinu því að ég trúði og treysti fólkinu í nefndinni sem stóð að þessum breytingum með mér, ásamt Alþingi öllu að sjálfsögðu, að staðið yrði við þetta samkomulag. Nei, það var ekki staðið við það. Það var gert í fyrra en núna var farið í gamla farið, menn stóðust ekki freistinguna. Af hverju skyldi mér vera svona mikið niðri fyrir? Það er vegna þess að í breytingunni sem gerð var felst einmitt hið gagnstæða, þ.e. að við máum burt hin pólitísku fingraför, ef ég má nota þau orð, geðþóttaákvarðanir stjórnmálamanna í meiri hluta á hverjum tíma, og setjum málið í faglegan farveg. Því er snúið við núna. Í dag tekur hv. fjárlaganefnd ekki á móti umsögnum. Hún vísar þeim frá sér í faglegt ferli. Síðan dúkka upp fleiri en ein, fleiri en tvær og fleiri en þrjár tillögur í þá veru. Það er algerlega ólíðandi að menn gangi svona á bak orða sinna og svíki það sem búið er að ákveða. Ég lýsi mjög miklum vonbrigðum með þetta og í raun er ég niðurbrotinn maður eftir meðferðina á þessu máli af því að það snýst um réttlæti, það snýst um að hafa einhver prinsipp.

Ég vil nota síðustu mínútuna í ræðu minni til að ítreka það sem ég sagði; ég lýsi mikilli furðu á breytingartillögu hæstv. fjármálaráðherra eftir samningaviðræður við hv. þingmenn Bjartrar framtíðar um að lækka útgjöldin um 600 millj. kr. Það er alveg hreint með ólíkindum að við skulum ræða um í 3. umr. fjárlaga án þess að búið sé að fara yfir tekjugreinina og efnahags- og viðskiptanefnd hafi skilað umsögn til hv. fjárlaganefndar eins og ber að gera eftir þá umræðu sem átti sér stað í fyrra. Nei, það er ekki gert. Og síðan sér maður tvo hv. þingmenn Bjartrar framtíðar koma fram og segja að nú sé þetta komið nokkuð gott hjá minni hlutanum, hann sé búinn að tala um þessi mál í fleiri daga þar sem verið er að kalla eftir upplýsingum, kalla eftir gögnum. Þessir tveir hv. þingmenn sitja við ríkisstjórnarborðið og taka þátt í samningum, það blasir við af því að hv. þingmenn hafa komið fram í fjölmiðlum og sagt: Við munum ekki samþykkja þetta. Þess vegna hefur hæstv. fjármálaráðherra verið upptekinn við samningagerð varðandi þessa breytingartillögu. Það færi betur á því ef hv. þingmenn, hvort heldur sem þeir eru í meiri hlutanum eða í minni hlutanum, hefðu eðlilegan aðgang að gögnum til að geta rækt skyldustörf sín sem fulltrúar í hv. fjárlaganefnd.