144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

náttúrupassi og gistináttagjald.

[11:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég ætla beina fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra varðandi mál sem hún hefur borið hér í þingið og kallað er reisupassinn, náttúrupassi af sumum, og varðar gjaldtöku í tengslum við ferðamannastaði og náttúruperlur hér innan lands. Ég vil aðeins fá að spyrja ráðherrann um tillöguflutning hennar vegna þeirra frétta sem verið hafa af afstöðu atvinnugreinarinnar sjálfrar í málinu.

Hér er sannarlega úr vöndu að ráða við mörg ólík sjónarmið um langt árabil, en það ber ekki á öðru en að samstaða hafi náðst að minnsta kosti hjá meiri hlutanum innan Samtaka ferðaþjónustunnar um það að ein leið í gjaldtöku væri hér skynsamlegri en önnur. Þá er í þokkabót nýtt gjaldtökuleið sem fyrir er, þ.e. gistináttaskattinn, til þess að fá inn þær tekjur sem hér er um að ræða. Þegar það fer saman að það er sjónarmið atvinnugreinarinnar að fara þá leið og að það er leið sem er til þess fallin að flækja ekki skatt- og gjaldakerfið, þá spyr maður auðvitað: Hvaða ríku ástæður liggja til þess að fara ekki að þeim sjónarmiðum atvinnugreinarinnar, og þá kannski sérstaklega vegna þess að nú situr í embætti ráðherra ferðamála hæstv. ráðherra Ragnheiður Elín Árnadóttir? Ég hélt að hún sjálf og flokkur hennar, Sjálfstæðisflokkurinn, hefðu lagt ríka áherslu hér í ræðustól Alþingis á að leggja beri á gjöld og skatta á atvinnugreinar í samráði við atvinnugreinarnar en ekki í andstöðu við þær og hins vegar að það sé mikilvæg grundvallarregla við gjaldtöku að ekki sé verið að flækja kerfið. Hér er augljóslega (Forseti hringir.) bæði verið að fara gegn vilja greinarinnar sjálfrar og flækja kerfið.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Hefur hún og Sjálfstæðisflokkurinn (Forseti hringir.) horfið frá þeirri stefnu að hafa samráð við atvinnugreinar og reyna að halda sig við einfalt skattkerfi?