144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[15:00]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að það væri til bóta, þótt seint sé, að hæstv. fjármálaráðherra og formaður atvinnuveganefndar læsu lögin um rammaáætlun, lög um verndar- og orkunýtingaráætlun. Hv. þm. Jón Gunnarsson vill fá leiðbeiningar um það hvaða ákvæði laganna málatilbúnaður hans brjóti. Það er sjálfsagt að verða honum innan handar með það. Í 5. gr. segir um biðflokk:

„Í biðflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar falla virkjunarkostir sem er talið að afla þurfi frekari upplýsinga um …“

Nú liggur fyrir að það á við í þessu tilviki. Verkefnisstjórnin hefur sjálf rökstutt niðurstöðu sína til ráðherra með því að ekki sé tímabært að breyta stöðu tveggja af þremur virkjunum í neðri hluta Þjórsár o.s.frv. Umhverfisráðherra hefur fallist á þá niðurstöðu verkefnisstjórnar með því að leggja bara til Hvammsvirkjun. Hv. þingmaður, þetta væri því í bága við 5. gr. Þetta væri að öllu leyti í bága við 10. gr., þetta mundi hafa af almenningi réttinn sem þar er tryggður til upplýsinga. Þetta er sennilega líka brot á lögum um (Forseti hringir.) umhverfismat áætlana og þetta er í andstöðu við það að Ísland hefur (Forseti hringir.) lögleitt Árósasamninginn sem tryggir almenningi (Forseti hringir.) þennan rétt á sviði umhverfismála.