145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:20]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Það er afar brýnt að við skiljum ekki við þetta fjárlagafrumvarp, afgreiðum ekki fjárlögin og ekki heldur fjáraukalögin án þess að taka á kjaramálum aldraðra og öryrkja. Það er afar mikilvægt. Ég hef sagt áður en mig langar bara í upphafi að rifja þetta upp áður en ég sný mér að öðru að á árinu 2015 hækkuðu lífeyrisþegar um 3% en á árinu 2015 hækkuðu þeir sem eru með lægstu laun og eru í VR eða í Flóabandalaginu um 10,9%, frá 1. maí. Í hverjum mánuði eru þeir með 10,9% hækkun út allt árið en aldraðir og öryrkjar 3% hækkun. Þarna er munurinn strax kominn og stjórnarliðar vilja ekki borga og bæta kjör aldraðra og öryrkja aftur í tímann eins og aðrir fá. Samkvæmt þeim tillögum sem við erum að ræða hér leggur stjórnarmeirihlutinn til að aldraðir og öryrkjar hækki um 9,7% 1. janúar 2016. Munum að þau sem eru með lægstu launin fengu 10,9% 1. maí 2015. Síðan hækka þau sem eru með lægstu launin aftur 1. maí 2016 um 5,9%. Það er alveg sama hvernig við snúum þessum prósentutölum fram og til baka, hópurinn aldraðir og öryrkjar verður verr settur en þeir sem eru með lægstu launin bæði 2015 og 2016 ef þetta gengur eftir. Samkvæmt upplýsingum frá velferðarráðuneytinu sem fjárlaganefnd fékk 9. desember 2015 verða bætur einhleypings með heimilisuppbót á árinu 2016 246.902. Samkvæmt samningum sem VR og Flóabandalagið gerðu verða lægstu laun 270 þús. kr., aðrir gerðu lítillega öðruvísi samninga. Það er þó nokkur munur á tæplega 247 þús. kr. og 270 þús. kr. en þannig verður bilið á árinu 2016. Við í stjórnarandstöðunni leggjum á það áherslu og ölum með okkur þá von í brjósti að ef stjórnarliðar geta ekki hugsað sér að samþykkja tillögu minni hlutans komi þeir með breytingartillögu því að það er skömm að því að skilja þennan hóp einan eftir. Lög um almannatryggingar voru ekki sett til að tryggja að þessi hópur væri fátækasti hópurinn í samfélaginu. Lögin voru sett til að tryggja nákvæmlega andstæðuna, að þessir hópar sætu ekki eftir.

Frú forseti. Það er líka afar mikilvægt að bregðast við vanda Landspítalans, það er mjög mikilvægt að koma til móts við magnaukningu þar, fjölgun sjúklinga. Ef það er ekki gert er verið að krefja Landspítalann um niðurskurð upp á 1 milljarð. Það er líka óásættanlegt. Auk þess stendur yfir deila um kjör lækna, um vaktaskipulag þeirra, og Ríkisendurskoðun er að skoða fyrir fjárlaganefnd hvort það geti verið að 400 milljónir vanti upp á útreikningana.

Þessir tveir málaflokkar eru afskaplega mikilvægir og það er ekki hægt að skilja við fjárlagafrumvarpið eins og það er útbúið. Það verður að taka á málefnum aldraðra og öryrkja og það verður að bregðast við magnaukningu á Landspítalanum.

Það er fleira í þessu fjárlagafrumvarpi. Gert er ráð fyrir að útvarpsgjaldið lækki úr 17.800 í 16.400 á árinu 2016. Þegar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra kom fyrir fjárlaganefnd sagði hann okkur að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra kæmi með frumvarp til þingsins sem fæli það í sér að útvarpsgjaldið yrði það sama á árinu 2016 og það er núna, árið 2015. Nú höfum við fylgst með því í fréttum að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra kemst ekki með frumvarp sitt í gegnum ríkisstjórn. Sagt er að þingflokkar framsóknar- og sjálfstæðismanna hleypi því ekki í gegn. Hvað þýðir þetta, frú forseti? Það þýðir að Ríkisútvarpið þarf að skera niður í fyrsta lagi um 400 milljónir vegna útvarpsgjaldsins en fyrir hefði það hvort sem er þurft að skera niður um 100 milljónir út af kjörum. Gert er ráð fyrir að útvarpsgjaldið verði það sama á árinu 2016 og það er 2015. Á árinu 2015 urðu miklar kjarabreytingar eins og við þekkjum og talið er að það muni kosta útvarpið rúmar 100 millj. kr. að bregðast við því. Ef þetta verður látið fram ganga þarf útvarpið að skera niður um 500 millj. kr. Hv. stjórnarþingmenn innan fjárlaganefndar hafa lagt mikið upp úr byggðasjónarmiðunum og ég er afskaplega ánægð með þær áherslur, en hvað halda menn með Ríkisútvarpið ef skera þarf niður um 500 milljónir? Hvar halda menn að niðurskurðurinn muni bíta fastast? Mun hann bíta fastast í höfuðborginni eða verður þjónustan skorin niður um allt land? Vissulega, enda erum við að tala um hálfan milljarð, en væntanlega eru dýrari stöðvar úti um landið. Verða þær teknar niður? Mér finnst það ekki ólíklegt og mér finnst að hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans ættu að skoða hug sinn varðandi þetta og segja hér skýrt hvernig þeir sjá fyrir sér framtíð Ríkisútvarpsins með minna rekstrarfé.

Að lokum, frú forseti, vil ég benda á annað. Þarna eru sem sagt stjórnarliðar að setja stefnumótun hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra stólinn fyrir dyrnar. Þeir segja við ráðherrann: Nei, við erum ekki sammála þessari stefnumörkun hjá þér, við viljum skera niður í Ríkisútvarpinu. Við viljum breyta því og hafa það allt öðruvísi en það er núna, draga úr almannahlutverki o.s.frv.

Önnur tillaga í breytingartillögunum er sama eðlis þar sem hv. stjórnarþingmenn í meiri hluta fjárlaganefndar koma með stefnumarkandi tillögu um Þjóðskjalasafnið. Þar er lagt til að heimilt verði að selja Laugaveg 162 sem hýsir Þjóðskjalasafnið. Þetta er alls ekki í takt við stefnumótun Þjóðskjalasafnsins sem ráðuneytið og hæstv. ráðherra samþykktu og birt var á árinu 2014, í fyrra, þar sem talað var um staðsetninguna á Laugavegi 162 og að það ætti að endurbyggja það húsnæði til að það hentaði safninu. Þar er búið að leggja í mikinn hönnunarkostnað. Það eru hv. þingmenn í meiri hluta fjárlaganefndar sem líst vel á að þetta húsnæði verði notað fyrir hótel eða aðstöðu fyrir ferðamenn og þá skal Þjóðskjalasafn Íslands, eina safnið sem nefnt er í stjórnarskránni, sem þjónar almenningi, stjórnsýslunni og fræðasamfélaginu (Forseti hringir.) fara guð má vita hvert.