145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:46]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef áhyggjur af því að þetta muni bitna á innlendri dagskrá og því sem tekur til sín kostnað, ferðalög út á land o.s.frv. Ef maður er að reka ríkisútvarp og þarf að skera niður um 500 milljónir er einfaldast að horfa á dýrasta partinn og hætta að fara í vettvangsferðir um land og láta duga að hringja, tala í gegnum tölvu eða eitthvað slíkt. Það verður ekki eins gott efni, ég held að það fari fyrst og fremst.

500 milljónir eru miklir peningar og stofnunin hefur þurft að fara í gegnum mikinn niðurskurð og endurskoðun þannig að ég held að þetta muni mikil áhrif. Stjórn útvarpsins hefur sagt það skýrum orðum. Oftar en einu sinni hefur hún komið fyrir fjárlaganefnd til að fara yfir reksturinn og sýna fram á að það muni hafa afdrifarík áhrif að lækka gjaldið. Ég minni bara á það sem stendur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Ríkisútvarpið. Ég vil lesa það sem þingmannanefndin skrifaði um þetta í skýrslu sína til að undirbyggja þingsályktunartillögu sem allir þingmenn samþykktu. Málsgreinin er svona, með leyfi forseta:

„Ábyrgð fjölmiðla sem fjórða valdsins er mikil en þar hlýtur ábyrgð Ríkisútvarpsins að vega þyngst. Mikilvægt er að búa svo um hnútana að Ríkisútvarpið geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu sem öflugur fréttamiðill og vettvangur fræðslu, menningar og skoðanaskipta. Þá verður að gera þá kröfu á hendur Ríkisútvarpinu að það beiti sér öðrum fremur fyrir vandaðri rannsóknarblaðamennsku.“

Til að þetta geti orðið þarf að búa svo um hnútana að Ríkisútvarpið geti rekið (Forseti hringir.) sig og staðið undir kröfunum.