145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:53]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þessa beiðni. Eins mundi ég vilja sjá forustu fjárlaganefndar í salnum þegar verið er að ræða þetta frumvarp. Ekki bara hafa þau komið hér með breytingar aftur og aftur við málið meðan á umræðunni hefur staðið heldur hafa þau kallað ýmsar meiningar úr sætum okkar um það sem við höfum verið að segja. Það væri mikilvægt fyrir okkur að eiga við þau samtal í andsvörum þannig að ég óska eftir því líka að það verði kallað á forustu fjárlaganefndar ásamt heilbrigðisráðherra, ég tek undir það, og mennta- og menningarmálaráðherra. Ég vil líka að félags- og húsnæðismálaráðherra sé hér vegna þess að hún kom hérna áðan og meðan við vorum að fara yfir tölur um það hvernig lægstu tekjur lífeyrisþega höfðu hækkað í tíð jafnaðarmanna í félagsmálaráðuneytinu, um 30% á milli áranna 2008 og 2009, hljóp hún út. Það var á meðan við kölluðum eftir samtali við hana um það hvernig það fengi staðist að þau kölluðu fram í að hér væri um einhver met að ræða þegar raunin er sú að lífeyrisþegar (Forseti hringir.) eru sveltir í þessu landi. Ég óska eftir að þessi fagráðherra komi hingað ásamt forustu nefndarinnar.