145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:07]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég held að í hugum velflestra Íslendinga sé kjarninn í þingstörfunum þingfundirnir þó að við sem störfum hér vitum að það er ýmislegt annað sýslað, bæði í nefndum og í undirbúningi í daglegu lífi þingmanna. Í 1. mgr. 65. gr. þingskapalaga segir einfaldlega:

„Skylt er þingmönnum að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni. Forföll skal tilkynna forseta svo fljótt sem unnt er og metur hann nauðsynina.“

Ég vil fá upplýsingar um hver séu forföll hv. formanns fjárlaganefndar og varaformanns fjárlaganefndar, Vigdísar Hauksdóttur og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, sem eiga samkvæmt lögum að vera við umræðuna og auðvitað til viðbótar vegna málefnalegra sjónarmiða. (Forseti hringir.) Einnig vil ég spyrja um fjarvistir hæstvirtra ráðherra sem þráfaldlega hafa verið boðaðir á fundinn og lúta sömu lagagrein þar sem þeir eru einnig þingmenn.