145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:17]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stjórnskipuleg staða ráðherra er í engu breytt sökum þessa. Það ætti hv. þingmaður að þekkja mætavel þegar hann, þá sem hæstv. utanríkisráðherra, stóð í þeim sporum að það mál sem hann og hans flokkur hafði lagt mesta áherslu á í ríkisstjórnarsamstarfi var strandað eða stöðvað meðal annars af samráðherrum hans úr öðrum flokki, aðildarumsóknin að ESB var sett á ís. Það breytti í engu stjórnskipulegri stöðu ráðherrans. Það er alþekkt að ráðherrar geta lent í þeirri stöðu að koma ekki máli í gegn í þinginu eða út úr ríkisstjórn, en það breytir ekki stjórnskipulegri stöðu manna hér.

En það sem blasir við er að komi til þess að útvarpsgjaldið lækki úr 17.800 í 16.400 kr. þarf að bregðast við því. Og það er bara eitt ráð til þess, það er þá að skera niður í þjónustunni. En þá þarf líka um leið að huga að þjónustusamningi því að það þarf að vera samræmi á milli þeirrar kröfu (Forseti hringir.) sem við gerum af hálfu ríkisvaldsins til þessarar stofnunar okkar sem fram kemur í lögum eða þjónustusamningi, og síðan þeirra fjármuna sem stofnunin fær til að sinna því hlutverki.