146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil í tilefni orða hv. þingmanns um vaxtagreiðslur upplýsa þingheim um tilkynningu sem kom til Verðbréfaþings í dag um að ríkissjóður hefur keypt til baka eigin skuldabréf að virði u.þ.b. 100 milljarða kr. Það eru bandarísk skuldabréf sem bera 5,875% vexti með gjalddaga á árinu 2022. Við kaupum þetta á verðinu 115.

Þetta þýðir að vaxtagreiðslur ríkissjóðs munu á næstu fimm árum lækka frá því sem gert er ráð fyrir í áætluninni, þetta er bara það sem er að gerast í dag, um u.þ.b. 5,8 milljarða kr. á ári. Þetta er raunveruleg lækkun. Ég veit að það gleður hv. þingmann að þarna sjáum við mun meiri lækkun. Við erum að ráðast á það lán eða þann skuldabréfaflokk sem hæsta vexti ber. Við teljum að við séum að búa í haginn fyrir tímabilið sem við erum að ræða núna. Þess vegna taldi ég rétt að þetta kæmi fram í andsvari við hv. þingmann. Upplýsingar um þetta og niðurstöður útboðsins bárust rétt í þann mund sem þessi umræða var að hefjast.