146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:38]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu fjármálaáætlun, stóra myndin, langtímaáætlun um afkomu og efnahag opinberra aðila. Það er full ástæða til að gleðjast yfir breyttu verklagi eftir nýlegar breytingar á lögum um opinber fjármál. Fjögur meginmarkmið hagstjórnarinnar eru að draga úr þenslu, stuðla að stöðugleika, koma böndum á gengissveiflur og í síðasta lagi að tryggja og efla opinbera þjónustu og innviði.

Staðan í dag er þannig að við horfum á sögulega háan hagvöxt, mikla þenslu, mikla fjárfestingarþörf hjá ríki og sveitarfélögum og ekki síst hjá fyrirtækjum hins opinbera. Við erum með ofvöxt í einum stærsta atvinnuvegi þjóðarinnar sem hefur áhrif á aðra atvinnuvegi og fjölmarga þætti í samfélaginu eins og t.d. húsnæðismarkaðinn, heilbrigðiskerfið, löggæsluna og náttúruna. Verkefnin eru ærin til að koma hér á jafnvægi.

Nú hefur verið skrifuð fjármálastefna sem hefur verið til umræðu í þinginu að undanförnu og nú kemur fram áætlun fyrir öll málefnasviðin. Með fyrirkomulaginu er skapað skýrt samhengi milli faglegra markmiða og fjármuna sem varið er til einstakra málefnasviða. Hér erum við að setja mælanleg markmið og hengja krónutölur á þau markmið í stað tilviljanakenndra úthlutana. Þetta eru í mínum huga byltingarkenndar framfarir sem hér eru að eiga sér stað, hvað vinnubrögð varðar að minnsta kosti. Loksins liggur fyrir stefna og áætlun sem byggja á mælanlegum markmiðum um innviðauppbyggingu en ekki handahófskenndum vilja til að gera vel.

Ég bind miklar vonir við að fjármálastefnan og fjármálaáætlun sem byggir á henni komi til með að breyta gamla verklaginu. Fjárlaganefnd á ekki að vera afgreiðslustofnun á tilviljanakenndum ákvörðunum. Hún á að taka mið af stefnu og mælanlegum markmiðum og styðja markvissa fjármálastjórn. Við eigum að skoða heildarmyndina. Þannig náum við árangri.

Ég vil nefna líka að fjármálaáætlun er ekki eingöngu áætlun um ríkisfjármál. Hún er áætlun um fjármál hins opinbera. Í því felst að fyrirtæki hins opinbera og sveitarfélög verða hluti af henni líka. Ríki og sveitarfélög taka nú sameiginlega ábyrgð á að tryggja að ákvarðanir séu í samræmi við markmið hagstjórnarinnar í heild sinni til að koma í veg fyrir þenslu, t.d. eins og árar nú. Þá verða fjárfestingar og útgjalda- og skattstefna þess aðila í takti og í samræmi við hagstjórnarmarkmið. Héðan í frá munum við betur vita hvert við erum að fara og hvernig við ætlum að komast þangað. Það verður mikil bót að því. Ég held að þetta verklag muni örugglega reynast farsælt, enda er það mun gegnsærra og heilbrigðara að mínu mati.

Mig langar til að beina orðum mínum örlítið að heilbrigðismálum þar sem þessi ríkisstjórn hefur lagt áherslu á heilbrigðis- og velferðarmál. Stóra verkefnið í mínum huga er að mynda heildstæða heilbrigðisstefnu, skilgreina þjónustuna og setja okkur markmið. Við leggjum áherslu á lýðheilsu, geðheilbrigði og öldrunarþjónustu. Á sviði lýðheilsu, sem í mínum huga er gríðarlega mikilvæg, forvarnaverkfæri, verður áfram unnið að eflingu heilsu og heilbrigðra lifnaðarhátta og stutt við heilsueflandi skóla, heilsueflandi samfélög og áherslan verður á verkefni tengd geðrækt. Þetta eru mikilvægar forvarnir í mínum huga og tryggja gott samstarf við sveitarfélögin, vonandi, sem í nærþjónustu sjá um mikilvæg verkefni þessu tengd. Áfram verður unnið að uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut, sem ég fagna mjög, þar sem núverandi húsakostur verður bættur og áfram unnið að því að tryggja mönnun.

Þjónusta heilsugæslunnar verður styrkt, m.a. með fjölgun fagstétta sem veita þar þjónustu, t.d. sjúkraþjálfara, næringarfræðinga og sálfræðinga. Geðheilbrigðisþjónusta verður efld, m.a. með fjölgun sálfræðinga í heilsugæslum og framhaldsskólum og á ýmsum fleiri sviðum. Öldrunarþjónusta verður styrkt með áframhaldandi stuðningi við heimahjúkrun, endurhæfingu, dagdvöl og fjölgun hjúkrunarrýma. Áfram verður unnið að styttingu biðlista með ákveðnum aðgerðum.

Að lokum hvað varðar heilbrigðismál er ánægjulegt að nýtt greiðsluþátttökukerfi tekur gildi 1. maí næstkomandi. Stefnt er að lækkun greiðsluþátttöku vegna heilbrigðisþjónustu á tímabilinu.

Næst langar mig til að víkja að umhverfismálum. Í fyrsta lagi á að leiða gerð og innleiðingu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum fyrir Ísland til ársins 2030. Í öðru lagi er áhersla á stjórnun nýtingar á viðkvæmum og mikilvægum svæðum með uppbyggingu viðeigandi innviða. Í þriðja lagi er áhersla á að öll landnýting og landbætur, svo sem landgræðsla og skógrækt og endurheimt framræsts votlendis, taki mið af náttúruvernd og vernd líffræðilegs fjölbreytileika. Í fjórða lagi er áhersla á grænt hagkerfi og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Í fimmta lagi er lögð áhersla á einföldun regluverks og aukna skilvirkni í stjórnsýslu með notkun rafrænna lausna ásamt áherslu á samþættingu verkefna og aukna samvinnu milli stofnana. Tvöfalda á í ársbyrjun 2018 kolefnisgjaldið sem lagt er á jarðefniseldsneyti og jarðgas. Aðgerðin hefur jafnframt jákvæð áhrif á tekjur ríkissjóðs til skamms tíma eða um rúma 4 milljarða kr. árlega. Vænta má frekari aðgerða á sviði grænna skatta á tímabilinu. Framlög til málefnasviðsins, málefnasviðs 17 sem eru umhverfismál, munu aukast um sirka milljarð frá árinu 2017–2018.

Fjölmörg önnur mikilvæg umhverfismál, sem ég ætla ekki að telja upp hér, tel ég í öllu þessu efnahagslega samhengi gríðarlega mikilvæg. Hér er verið að leggja áherslu á langtímahugsun og stöðugleika. Í fjármálaáætlun birtist stefnumótun fyrir 34 málefnasvið og 101 málaflokk. Stefnumótunin felur í sér ítarlega markmiðssetningu fyrir hvern málaflokk og er mikilvægt tól fyrir Alþingi til að fylgja eftir þeim mælikvörðum sem ráðuneytin setja fram í þeim málaflokkum sem þau bera ábyrgð á. Það sem er allra mikilvægast er að þetta verklag tryggir að þær stefnur sem settar eru fram séu í samhengi við fjárheimildir til málefnasviða.

Ég hef lokið máli mínu.