146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:44]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ein af stóru áskorunum fram undan er að Ísland sé samkeppnisfært samfélag og að hér séu næg tækifæri fyrir ungt fólk að koma undir sig fótunum og fjölbreytt starfsval sé í boði. Við viljum að hagkerfið okkar skapi vel launuð störf og velferðarsamfélagið dafni og vaxi. Menntunarstig þjóða ræður miklu um velsæld þeirra og tækifæri. Þjóðum sem leggja rækt við menntun og þekkingu farnast einna best til lengri tíma litið. Sjálfstraust og kjarkur til framfara eykst samhliða þekkingarsamfélaginu. Þess vegna viljum við að á Íslandi séu samkeppnisfærir háskólar sem búa framtíð landsins undir þær áskoranir sem fram undan eru og í leiðinni efli íslenskt samfélag.

Kynnt hefur verið fimm ára ríkisfjármálaáætlun og má segja að horfurnar séu að mörgu leyti bjartar fyrir íslenskt samfélag. Þjóðhagsspáin er góð, áframhaldandi hagvöxtur, hátt atvinnustig, skuldir ríkissjóðs lækka og afgangur á viðskiptajöfnuðinum. Að sumu leyti kjöraðstæður.

Ég spyr því: Hvernig stendur á því að ekki er verið að fjárfesta í framtíðinni, þ.e. háskólastiginu, eins og öll önnur samanburðarríkin í kringum okkur eru að gera? Samkvæmt áætluninni er sáralítil aukning í framlögum frá árinu 2019–2022. Ég á enn mjög bágt með að trúa að þetta sé menntastefna ríkisstjórnarinnar, sérstaklega í ljósi þess hversu vel árar í samfélaginu. Ég velti því fyrir mér þegar ég var að líta á þessar töflur hvort það væri hreinlega villa í töflunni fyrir háskólastigið. En svo komst ég að því að það er ekki raunin. Ef við lítum á raunvöxtinn á hverju ári er hann ekki nema 1,6%.

Ég veit að það getur verið mjög erfitt fyrir stjórnarliða að heyra þessa áætlun, sér í lagi þegar um er að ræða enga framtíðarsýn er varðar háskólastigið. Að sumu leyti má segja að um sé að ræða ákveðna afturför. Ég segi afturför vegna þess að í aðdraganda kosninganna var einhugur um að Ísland skyldi stefna að því að ná meðaltali OECD-ríkjanna á kjörtímabilinu hvað varðar fjárframlög á hvern háskólanema.

Ríkisfjármálaáætlunin er ekki í samræmi við fyrirheit kosninganna og er víðs fjarri stefnu Vísinda- og tækniráðs um að ná OECD-meðaltalinu og Norðurlandameðaltalinu árið 2020. Ljóst er að miðað við þessa áætlun og óbreyttan nemendafjölda á háskólastigi mun Ísland seint ná OECD-meðaltalinu, hvað þá Norðurlandameðaltalinu. Samkvæmt rektor Háskóla Íslands er eina leiðin til að ná þeim meðaltölum, miðað við áætlunina, að mikil fækkun nemenda verði á háskólastiginu. Er það það sem við viljum? Viljum við virkilega að til þess að við séum með þeim ríkjum og að getum borið okkur saman við sambærileg ríki þurfi að fækka nemendum á háskólastigi?

Að auki er Hús íslenskra fræða í áætluninni sem framlag til háskólanna. Umtalsverður hluti af þessari litlu aukningu fer til byggingar Húss íslenskra fræða fyrstu árin. Ekki er þannig gert ráð fyrir verulegri hækkun framlaga til háskólanna fyrr en eftir að húsið hefur verið reist árið 2020. Mér finnst um ákveðna blekkingu að ræða að hafa þessa fjárfestingu í Húsi íslenskra fræða með í þessari áætlun. Í raun og veru er þetta fjárfesting. Það blekkir okkur svolítið þegar við skoðum þessar tölur að hafa þessa fjárfestingu þarna með því að við eigum þá aðeins erfiðara með að gera okkur grein fyrir rekstrarframlögunum.

Ég ætla aðeins að koma að rektor Háskóla Íslands. Hann segir að fram undan sé niðurskurður. Framtíðarsýnin sem ríkisstjórnin bjóði upp á sé að fækka námsgreinum og námsleiðum. Þess vegna er rætt um aðför að rannsóknarháskólunum.

Annað þarf að skoða í þessu samhengi, hvort fimm ára ríkisfjármálaáætlunin sé í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Í stjórnarsáttmálanum segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun stuðla að uppbyggingu á innviðum samfélagsins, samgöngum, heilbrigðis- og menntakerfi og kraftmiklu og samkeppnishæfu atvinnulífi fyrir íbúa um land allt.“

Hljómar allt vel og gefur góð fyrirheit. Einnig segir í stjórnarsáttmálanum, með leyfi forseta:

„Styðja skal háskólana í að halda uppi gæðum og standast alþjóðlega samkeppni um leið og samvinna og samhæfing íslenskra háskóla- og vísindastofnana verður aukin. Endurskoða þarf reiknilíkön skólakerfisins með tilliti til mismunandi kostnaðar og fjölbreytts nemendahóps.“

Þetta hljómar allt bara mjög vel. En maður er mjög hissa á að sjá þetta ekki í fimm ára ríkisfjármálaáætluninni. Ég spyr stjórnarliða: Hvernig getur verið svona mikið ósamræmi í stjórnarsáttmálanum og fimm ára ríkisfjármálaáætluninni? Það er í raun sorglegt að þurfa að benda á hversu litla framtíðarsýn ríkisstjórnin hefur í þessum málaflokki.

Á næstu misserum munum við sjá miklar framfarir er varða tölvutækni, gervigreind og vélmennavæðingu. Hlutfall slíkra starfa mun aukast og þau grundvallast á þekkingu og menntun. Ef ekki er fjárfest í háskólastiginu dregst Ísland aftur úr. Hvert ár skiptir hér miklu máli. Því er fimm ára ríkisfjármálaáætlunin reiðarslag fyrir háskóla og vísindasamfélag Íslands.

Virðulegi forseti. Eftir eitt mesta hagvaxtarskeið Íslandssögunnar er háskólastiginu á Íslandi ekki sýnd sú vegsemd og virðing sem vera ber. Við erum ekki að undirbúa okkur fyrir framtíðina með þessu stefnuleysi. Við blasir undirfjármagnað háskólastig sem stenst engan samanburð þegar fram í sækir — það er enn tækifæri til að gera breytingar á ríkisfjármálaáætluninni og hvet ég alla sem að því geta komið til að stuðla að því að svo verði — háskólastig sem kemur illa út í öllum samanburði við lönd sem við viljum helst bera okkur saman við.