149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

afbrigði.

[14:44]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Þótt oft sé hart tekist á í stjórnmálunum hef ég leitast við að verja ákveðin grundvallarprinsipp og fyrir vikið oft komið til varnar fólki úr öðrum flokkum, pólitískum andstæðingum, jafnvel þegar það hefur verið erfitt. Það er sorglegt að sjá hvað Alþingi á fáa prinsippmenn. Ég hélt satt best að segja að þeir væru fleiri í Sjálfstæðisflokknum en raun ber vitni.

Allt er þetta gert til að koma máli til siðanefndar, máli sem heyrir ekki einu sinni undir nefndina samkvæmt reglunum sem um hana gilda. Gildissvið nefndarinnar sýnir að málið á ekki einu sinni heima þar, (Gripið fram í.) en þangað ætlar forseti Alþingis að troða því. Það er sama hvað kemur út úr þessari siðanefnd, ég hef ekki áhyggjur af þeirri niðurstöðu frekar en aðrir sem hafa talað hér á undan, en mér finnst sorglegt að sjá hvernig forseti Alþingis hefur leitt þingið út í þessar ógöngur sem eru því miður óhjákvæmilega bara upphafið að áframhaldandi (Forseti hringir.) og væntanlega vaxandi vandræðagangi.

Ég segi nei.