149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og lögum um gjaldeyrismál. Eins og heiti frumvarpsins ber með sér skiptist efni þess í tvennt. Fyrri hlutinn snýr að breytingum á lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, nr. 37/2016.

Í fyrsta lagi er hér lagt til að undanþágur frá þeim takmörkunum á ráðstöfunarrétti eigna sem felast í lögunum verði rýmkaðar verulega. Þær krónueignir sem um ræðir hafa verið kallaðar aflandskrónueignir þar sem þær eru í vörslu erlendra aðila og gengi þeirra í viðskiptum er annað en á við um vöru- og þjónustuviðskipti innlendra aðila sem fara fram á innlendum gjaldeyrismarkaði, svokölluðum álandsmarkaði.

Lögin sem hér er lagt til að taki breytingum voru sett árið 2016 og voru mikilvægur liður í áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta. Við gildistöku þeirra voru aflandskrónueignir áætlaðar 319 milljarðar kr., eða um 15% af vergri landsframleiðslu. Síðan þá hafa stjórnvöld unnið markvisst að því að leysa þann vanda sem felst í slíkum eignum, sem nú standa í um 84 milljörðum kr., eða 3,1% af vergri landsframleiðslu, borið saman við 15% áður.

Þegar lögin tóku gildi vorið 2016 var fyrirséð að þær takmarkanir sem þau kváðu á um yrðu tímabundnar ráðstafanir og að stjórnvöld myndu aftur beina sjónum að losun hafta og aflandskrónueignum þegar betra jafnvægi kæmist á eignasöfn innlendra aðila. Mikil óvissa var þó um nákvæmar tímasetningar í því efni. Nú þykja hins vegar efnahagslegar forsendur vera til staðar fyrir því að öllum aflandskrónueigendum verði gefið færi á að losa aflandskrónueignir sínar.

Þær rýmkuðu heimildir til úttekta sem felast í frumvarpinu eru einkum þrenns konar. Í fyrsta lagi er almenn heimild fyrir alla aflandskrónueigendur til að losa aflandskrónueignir til að kaupa erlendan gjaldeyri og flytja á reikning erlendis. Heimildin nær aðeins til innstæðna og innstæðubréfa Seðlabankans en eigendur annars konar aflandskrónueigna, svo sem verðbréfa eða hlutabréfa, hafa möguleika á að selja þær eða eftir atvikum bíða þar til þær koma á gjalddaga vilji þeir nýta heimildina.

Í öðru lagi er í frumvarpinu heimild fyrir aflandskrónueigendur sem átt hafa aflandskrónueignir samfellt frá 28. nóvember 2008 til að losa aflandskrónueignir undan takmörkunum laganna. Ekki er gerð krafa um að keyptur sé erlendur gjaldeyrir og hann fluttur úr landi eins og í almennu heimildinni, heldur verður heimilt að ráðstafa eignunum hér á landi. Heimildin er háð staðfestingu Seðlabanka Íslands um að skilyrði um samfellt eignarhald sé uppfyllt.

Þá er í þriðja lagi heimild fyrir einstaklinga til að taka allt að 100 millj. kr. út af reikningum háðum sérstökum takmörkunum. Heimildin nær til innstæðna og innstæðubréfa Seðlabankans. Ekki er gerð krafa um að keyptur sé erlendur gjaldeyrir og hann fluttur út eins og í almennu heimildinni, heldur verður heimilt að ráðstafa eignunum hér á landi. Heimildin er háð staðfestingu Seðlabanka Íslands á að einstaklingur sé raunverulegur eigandi fjármunanna.

Síðari hluti frumvarpsins snýr að breytingum á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992. Lögð er til breyting á ákvæði til bráðabirgða III í lögunum þar sem kveðið er á um heimild Seðlabanka Íslands til að grípa til bindingarskyldu á fjármagnsinnstreymi. Sú heimild Seðlabankans, sem almennt er kölluð fjárstreymistækið, var lögfest árið 2016 sem liður í áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta. Bindingarskylda á fjármagnsinnstreymi inn á skuldabréfamarkað og í hávaxtainnstæður var sett á þar sem slíkt innflæði hafði raskað miðlun peningastefnunnar og hætta var á ofrisi krónunnar áður en útflutningshöft yrðu losuð. Þá kom hún í veg fyrir að áhætta byggðist upp í fjármálakerfinu vegna vaxtamunarviðskipta.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á umgjörð um birtingarskyldu fjármagnsinnstreymis, sem fela í sér aukinn sveigjanleika á formi bindingar reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris. Þær breytingar gera mögulegt að uppfylla bindingarskyldu með endurhverfum viðskiptum með innstæðubréf Seðlabankans, en hingað til hefur binding einungis verið möguleg með innleggi á bundinn reikning. Endurhverf viðskipti sem þessi hafa sambærileg efnahagsleg áhrif og binding á bindingarreikningi að því leyti að fjárfestir verður af ávöxtun á bindingartíma eins og hann hefði bundið fjármuni á bindingarreikningi. Munurinn á núverandi leið og þeirri sem hér er lagt til að bætist við felst í að geta átt innstæðubréf Seðlabankans eða í afleiðuviðskiptum í stað innstæðu, en einnig að fjárfestir sem kýs að uppfylla bindingarskyldu á nýjan hátt er ekki bundinn út bindingartímann heldur getur fjárfestir rofið bindingu með því að selja bréf, gera upp afleiðu eða rjúfa bindingu á bankareikningi gegn kostnaði í samræmi við eftirstöðvar birtingartíma. Gert er ráð fyrir að þeir fjárfestar eða fjármálafyrirtæki sem hafa uppfyllt bindingarskyldu á grundvelli núgildandi heimildar og eiga fjármuni á bundnum reikningum geti í kjölfar gildistöku laganna breytt fyrirkomulagi bindingar til samræmis við nýjar útfærslur hennar sem lagðar eru til með frumvarpinu.

Með þessari breytingu er leitast við að koma til móts við þá gagnrýni á fjárstreymistækið að tilvist þess komi í ákveðnum tilvikum alveg í veg fyrir fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi.

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er eitt af lokaskrefum stjórnvalda við afnám þeirra fjármagnshafta sem sett voru á í kjölfar fjármálaáfallsins 2008. Eins og kunnugt er voru fjármagnshöft afnumin á einstaklinga, fyrirtæki og lífeyrissjóði í mars 2017 en á þeim tíma var metið nauðsynlegt að viðhalda ákveðnum takmörkunum á ráðstöfun aflandskrónueigna.

Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.