150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

lögþvinguð sameining sveitarfélaga.

[10:44]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður talaði um sveitarfélög sem væru fullkomlega sjálfbær og þyrftu ekki á öðrum stuðningi að halda. Þá gleymir hv. þingmaður því kannski að löggjafinn hefur einmitt búið til verkfæri jöfnunarsjóðs sem mjög mörg af minni sveitarfélögunum hafa stóran hluta af tekjum sínum úr. Hv. þingmaður gleymir því líka að samkvæmt núgildandi sveitarstjórnarlögum hafa menn fyrst og fremst tvær leiðir um samstarf. En þegar ráðuneytið kannaði fyrir nokkrum árum hvernig því væri háttað voru gjarnan 20–25 samstarfssamningar inni í myndinni en flestir þeirra voru ekki byggðir á sveitarstjórnarlögum heldur fóru menn aðra leið. Menn eru alltaf að leita allra leiða til að standa undir lögboðnum verkefnum og hafa staðið sig býsna vel. En það er hins vegar samdóma álit mjög margra, og ég endurtek ekki nákvæmlega allra, að til þess að sveitarstjórnarstigið geti verið öflugt og sjálfbært, tekist á við framkvæmdarvaldið og átt eðlileg samskipti við löggjafann sé mikilvægt að sveitarstjórnarstigið sé stærra, að sveitarfélögin séu öflugri og stærri og þess vegna er þessi þingsályktunartillaga komin fram. En frumvarpið sem við þurfum að smíða þarf auðvitað að byggja á þeim sjónarmiðum sem komu m.a. fram í þingsal og í nefndaráliti og áliti einstakra þingmanna hér í gær.