150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

niðurskurður í vetrarþjónustu Vegagerðarinnar.

[10:45]
Horfa

Arna Lára Jónsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um tillögur sem eru til umræðu innan Vegagerðarinnar um niðurskurð í snjómokstri eða í svokallaðri vetrarþjónustu á þjóðvegum landsins sem snýr að snjómokstri og hálkuvörnum. Það kom fram í fréttum í síðustu viku að um væri að ræða 10% niðurskurð sem mun auðvitað hafa veruleg áhrif á þjónustu við landsmenn sem eru gríðarlega háðir henni. Eftir því sem mér skilst þá er þetta krafa frá ráðuneyti hæstv. ráðherra um að skera niður til að koma til móts við framúrkeyrslu á fjárheimildum. Eins og við vitum hefur verið ansi erfið vetrartíð og þurft að moka mikið og við sem þjóð sem býr á Íslandi þurfum að taka tillit til veðurs, til snjóa, rigningar, hálku og vinds. Við búum á Íslandi og við þurfum að taka tillit til þess. Sjálf bý ég vestur á fjörðum og starfa í sveitarstjórn og við þurfum auðvitað líka að horfa í snjómokstur og við vitum aldrei hvernig árið endar því að snjómokstur er bara ein af grunnþjónustu sveitarfélaga. Við bara mokum, sama hvort við höfum gert ráð fyrir því eða ekki og við tökum tillit til þess. Ef við förum fram úr þá komum við með viðauka af því að íbúar okkar sætta sig ekki við það að það sé ekki mokað. Og það á auðvitað líka að vera þannig á þjóðvegum landsins.

Það kom fram í þessari frétt frá Vegagerðinni í síðustu viku að 10% niðurskurður eigi ekki að koma niður á mokstri. Ég skil ekki hvernig það á að gerast, það er skorið niður um 10% en það á ekki að moka minna. Ég fæ það ekki til að ganga upp í höfðinu á mér og vonandi getur hæstv. ráðherra hjálpað mér við að skilja af því að 10% er ansi mikið.