150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

greiðslur til sauðfjárbúa.

[10:57]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Fyrir skömmu barst mér svar frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eða ráðuneyti hans vegna fyrirspurnar um greiðslur til sauðfjárbúa. Það voru þrjár spurningar og tveimur þeirra var svarað en þeirri þriðju var ekki svarað. Greiðslur til sauðfjárbúa á ári eru rúmir 5 milljarðar kr. Sá hluti fyrirspurnarinnar sem ekki var svarað beindist að því að fá upplýsingar um styrki til hvers einstaks bús í landinu. Því er hafnað að svara og vísað til ákvæða í þingskapalögum, nánar tiltekið 50. gr. og 90. gr., sem eru óljósar greinar um að ekki megi birta viðkvæmar upplýsingar eða upplýsingar sem ekki teljist nauðsynlegar.

Nú víkur svo við að styrkir til landbúnaðar eru auðvitað ráðstöfun á opinberu fé og varða því miklu um almannahagsmuni að almenningur og við vitum til hvaða hluta þeim styrkjum er varið og hvernig þeir eru nýttir. Til samanburðar má geta þess að í Evrópusambandinu er víðtækt styrktarkerfi til landbúnaðar og þar er sá háttur hafður á að hægt er að fletta upp hverju einasta búi í Evrópusambandinu og fá nákvæmlega sundurliðað hvaða styrki það hefur fengið frá hinu opinbera til síns rekstrar.

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann sé sáttur við þessa afgreiðslu ráðuneytisins og hvort hann muni ekki beita sér fyrir því að fyrirspurninni verði svarað og reglum, ef einhverjar eru sem koma í veg fyrir þessa birtingu, verði breytt.