150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

Alþingi sem fjölskylduvænn vinnustaður.

334. mál
[14:20]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ásgerði K. Gylfadóttur fyrir framsöguna og vil jafnframt þakka henni og meðflutningsmönnum hennar fyrir að vekja máls á þessu fyrirbæri, Alþingi sem vinnustað. Jafnvel þó að við gerum okkur öll grein fyrir því að Alþingi er óvenjulegur vinnustaður og eins og þingmaðurinn kom inn á mjög fjölbreytilegur, jafnvel eftir þingflokkum, er hann engu að síður vinnustaður þar sem vinnur venjulegt fólk sem á fjölskyldur og jafnvel áhugamál fyrir utan þingstörfin. Ég held að það sé mikilvægt að við ræðum þetta á hverjum tíma, þótt ekki sé nema bara í þeim tilgangi að þingið þroskist og þróist að einhverju leyti með samfélaginu eins og þingmaðurinn kom inn á.

Ég er ekki með neina draumalausn en held að sú leið sem þingmaðurinn leggur til geti verið ljómandi góð. Eitt sem mig langar að inna þingmanninn eftir er skipulag umræðna og takmörkun á umræðulengd. Þar finnst manni oft sem jafnvel tími fari til spillis, að þar fari a.m.k. oft tími í umræður sem væri hægt að hafa miklu hnitmiðaðri en þær raunverulega eru. Er það meðal þess sem þingmaðurinn sér fyrir sér með þessum breytingum að reyna að ná tökum á eða er þingmaðurinn fyrst og fremst að hugsa um fundartímann?