150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

Alþingi sem fjölskylduvænn vinnustaður.

334. mál
[14:23]
Horfa

Flm. (Ásgerður K. Gylfadóttir) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Það er gott að hann kom inn á þetta. Það hafa verið og eru í þingunum í kringum okkur, a.m.k. eru til fordæmi fyrir því, ákveðnir talsmenn þingflokka í ákveðnum málaflokkum. Það gæti dregið úr því að maður viti ekki hversu lengi umræðan dregst á langinn og annað slíkt þannig að það verði meira skipulag í kringum umræðu um ákveðin mál. Hver þingflokkur kæmi sér saman um fyrirkomulagið, hann ætti ákveðinn tíma og gæti ákveðið hver ætlar að koma sjónarmiðum flokksins á framfæri. Ég nefndi að hver þingflokkur er kannski sjálfstæður vinnustaður, jafnvel hver þingmaður, og þegar staðan er orðin eins og í dag að það eru átta mismannmargir þingflokkar geta stórir þingflokkar skipt álagi af löngum þingfundum á milli þingmanna en minni þingflokkar eiga erfiðara með að vera á vaktinni, hlusta og vakta það sem er í gangi. Óneitanlega getur þá ýmislegt farið fram hjá sem fólk myndi vilja fylgjast með. Það getur verið erfitt og þar af leiðandi slítandi og lýjandi. Ýmislegt hefur verið nefnt, t.d. ákveðnir talsmenn þingflokka, skammtaður tími og ef það eru álitamál er hægt að semja um eitthvað út frá almennu reglunni. Það er t.d. þetta sem er verið að hugsa í þessari umræðu.