150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

Alþingi sem fjölskylduvænn vinnustaður.

334. mál
[14:24]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eins og þingmaðurinn kom inn á er það þannig að jafnvel þótt við settum einhvers konar aðrar skorður eða takmarkanir á lengd umræðna þekkja hv. þingmenn að upp koma tilvik þar sem er erfitt að beita slíku. Þingmaðurinn þekkir hins vegar eins og ég að í sveitarstjórnum gengur oft og tíðum ljómandi vel að takmarka lengd umræðna og umræður eru oft miklu knappari en hér, jafnvel í málum sem varða gríðarlega mikla hagsmuni, sérstaklega í stærstu sveitarfélögunum. Þar virðist samt vera hægt að stytta umræður og hafa þær hnitmiðaðri.

Ég vil þess vegna í seinna andsvari brýna þingmanninn til að fá félaga sína í þingliði Framsóknarflokksins og annarra þingflokka sem kunna að vera á tillögunni til að ýta svolítið á eftir þessu máli í forsætisnefnd. Jafnvel þó að tillagan sem slík nái ekki fram að ganga eða verði ekki kláruð er umræðan ein og sér um þennan mikilvæga þátt í þingstörfunum alveg gríðarlega mikilvæg að mínu viti.