150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

almenn hegningarlög.

422. mál
[15:27]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hafa lagt þetta frumvarp fram. Þetta er góð breyting og víkkun á réttindum. Mig langar að velta því upp hvort ekki þyrfti í kjölfarið á þessu að fara í gang rannsókn á kerfinu sem byggir í kringum almenn hegningarlög. Þá er ég að tala um lögregluna og réttarvörslukerfið. Á síðasta ári var ráðist á trans konu, mig minnir í Árbænum, og þá spratt upp umræða í kringum það að trans fólk sem verður fyrir ofbeldi eða fólk sem verður fyrir ofbeldi vegna kynhneigðar sinnar, sem er nú þegar verndað í lögunum, þorir einfaldlega ekki að kæra málin af því það er ekki visst um að á það verði hlustað. Auk þess sem þetta er jaðarhópur er sögulegt að hann hefur orðið fyrir ofbeldi frá lögreglu þannig að lögreglan er kannski ekki sá aðili sem þau vilja fara til til að kæra þessi mál ef til þeirra kæmi.

Kynhneigð og kynvitund er nú þegar í lögunum en ég hef ekki séð að þau kerfi sem eiga að vernda þessi réttindi samkvæmt almennum hegningarlögum, sérstaklega í þessum greinum, lögreglan og réttarkerfið, taki vel á móti þessum einstaklingum. Spurning mín lýtur að því hvort eitthvað breytist ef þetta verður samþykkt.