151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:08]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessi svör frá hæstv. ráðherra. Þá vil ég spyrja í framhaldinu, fyrst íslenskum ríkisborgara verður ekki vísað frá landinu, sem er gott af því að það samræmist ekki stjórnarskrá, hvernig framkvæmdin verður ef íslenskur ríkisborgari mætir hingað og er ekki með PCR-próf, hvernig farið verður með þann einstakling á landamærum.

Talað er um að ef ferðamaður upplýsir ekki um ákveðinn dvalarstað í sóttkví verði viðkomandi ekki hleypt inn í landið. Hvernig er þetta með íslenska ríkisborgara sem koma til landsins? Eru þeir spurðir um hvar þeir dveljist í sóttkví? Ég hef þær heimildir að svo sé ekki, að ekki sé verið að spyrja íslenska ríkisborgara sem koma til landsins hvar þeir verða, hvort þeir verði með fjölskyldum sínum. Það hefur jú borið á fregnum af því að ættingjar sæki Íslendinga á flugvöllinn og ég velti fyrir mér: Hvernig á þessu að vera háttað? Eiga íslenskir ferðamenn að fara með leigubíl? Er það óhætt? Ég er bara að velta fyrir mér hvernig framkvæmdin sé.

Og aftur ítreka ég: Ég er fylgjandi stífum reglum á landamærunum af því að ég held að það sé mikilvægt, en ég er bara að forvitnast um hvernig þetta verður gert. Það er ekki að ástæðulausu sem það eru stífar reglur, en hvernig er framkvæmdin?

Að lokum vil ég spyrja hvort til álita komi í huga hæstv. ráðherra að heimila sölu í númeruð sæti á íþróttakappleikjum líkt og í leikhúsum og tónleikasölum, því að maður heyrir hátt harmakvein frá þeim sem eru að reyna að halda rekstri íþróttafélaganna gangandi.