151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

stjórnarskipunarlög.

188. mál
[15:32]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Lýðræðið á að vera fyrir alla en við þurfum líka að læra hvernig það virkar. Það er ekkert einfalt eða sjálfsagt við það hvernig við stundum eða iðkum lýðræði. Við þurfum einmitt að stunda það og næra það til að læra, því að það er breytileg vera, ef svo má að orði komast. Samfélagið hefur þróast hraðar og hraðar eftir því sem á hefur liðið og lýðræðið gerir það samhliða með fleiri samskiptatækjum, með betri skilningi á því hvernig t.d. kynvitund virkar og fleira sem hefur áhrif á það hvernig við ákveðum að setja lög í landinu og hvernig við ákveðum að forgangsraða fjármunum og þess háttar.

Lýðræðið á að vera fyrir alla og þar erum við með ákveðnar undirstöður sem segja okkur hvernig lýðræðið á að vera stundað. Við tökum tillit til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem er að sjálfsögðu lögfestur í landinu og við eigum að fara eftir, sem kveður á um þátttöku þeirra sem hafa ekki sjálfstæð réttindi til þátttöku. Það á að taka tillit til þess sem börn segja þrátt fyrir þær takmarkanir og reyna að veita þeim aukin réttindi umfram aldurstakmörkin sem kveðið er á um, 18 ár, það er ekkert að því að veita einmitt rödd og atkvæði til þeirra sem yngri eru. Ég er á þeirri skoðun að fara megi enn neðar, miklu neðar í raun og veru. En ég skil alveg að það sé nauðsynlegt að taka það kannski í skrefum því að við þurfum að læra á fyrirkomulagið, þurfum að læra hvaða áhrif það hefur á samfélagið. Eins og var bent á í flutningsræðu hefur það verið gert annars staðar og ég myndi vilja að við tækjum þau skref, og lengri skref, a.m.k. það skref að kosningarréttur væri fyrir fólk sem væri 16 ára á árinu, til að rífa ekki sundur árganga eins og þeir fylgjast að gegnum t.d. grunnskóla og framhaldsskóla. Það er áhugavert að skoða aðalnámskrá grunnskólanna, hina svokölluðu nýju aðalnámskrá sem er frá 2011. Í henni er tiltölulega nákvæmlega fjallað um það hvað nemandi á að kunna þegar hann lýkur grunnskóla. Hann á að geta tekið upplýstar ákvarðanir í lýðræðissamfélagi. Ef nemendur í grunnskóla eiga að vera búnir að ná þeirri hæfni, af hverju leyfum við þeim ekki að nota hana með því að taka þátt í almennum kosningum?

Í framsöguræðu var minnst á atkvæðagreiðslu um sambærilegt mál, lækkun kosningaaldurs á sveitarstjórnarstiginu. Þar greiddu vissulega 43 þingmenn atkvæði með þeirri lækkun. Það segir ekki alveg alla söguna. Það sem vantaði kannski í ræðuna var að einungis einn þingmaður var á móti, og níu greiddu ekki atkvæði en voru ekki á móti. Yfirgnæfandi meiri hluti þeirra þingmanna sem greiddu atkvæði tók afstöðu og sagði já. Svo voru tíu fjarstaddir þannig að hlutfallið 43 af 63 er í rauninni mun lægra en raunin var. Þegar greidd voru atkvæði var hlutfallið miklu hærra.

Ég hef útskýrt það áður í þessum ræðustól hvað þingmenn gera í raun og veru samkvæmt stjórnarskrá. Þar er lögð sú skylda á okkur eða í raun það frelsi að við högum störfum okkar einungis eftir sannfæringu okkar. Ég haga störfum mínum hérna eftir sannfæringu minni en ekki eftir neinum reglum frá kjósendum eða öðrum. Þetta er bara mín sannfæring þegar ég ýti á takka, greiði atkvæði eða í hverjum öðrum störfum þingsins. Það þýðir í raun og veru að ég fylgi samvisku minni þegar allt kemur til alls. Enginn einn þingmaður getur verið sérfræðingur í öllum málum. Þegar ég fjalla um mál sem ég er alls enginn sérfræðingur í, en fæ sérfræðiálit um, beiti ég samvisku minni til að vega og meta hvaða sérfræðiálit ég tel gott að fylgja og gera að lögum eða að veita fjármuni til og þess háttar. Ef við viljum í raun þingmenn sem fylgja sannfæringu sinni og samvisku á sem einfaldastan hátt þá ættum við að vera með fullan þingsal af fimm ára krökkum að mínu mati. Maður finnur fáa sem eru með jafn einlæga sannfæringu og samvisku og fimm ára krakkar. Það væri alla vega mjög gott að hafa sérstakt ungmennaþing til að heyra raddir þeirra.

Önnur ástæða fyrir því að ég segi þetta er að það hefur myndast sérstök útskýringaraðferð á veraldarvefnum sem heitir ELI5 eða „Explain Like I'm 5“, með leyfi forseta, útskýrðu þetta fyrirbæri eins og ég sé fimm ára. Mér finnst það eiga mjög vel við þingmannsstarfið. Við glímum mjög oft við tiltölulega flókin tæknileg úrlausnarefni og þá þarf virkilega að útskýra þau fyrir okkur eins og við séum fimm ára. Þegar það er ekki þannig eru tæknilegu útskýringarnar oft ekki fyrir viðvaninga. Kannski er reynt að einfalda þær fyrir fullorðið fólk en mjög oft tekst það ekki. Við lendum mjög oft í ýmiss konar sérfræðimáli sem getur valdið mjög tæknilegum misskilningi og mjög leiðigjörnum misskilningi. Þess vegna hef ég t.d. verið fylgjandi því að stjórnarskrá og breytingar á henni séu á mannamáli, tæknileg túlkun á því takmarkist á þeim forsendum en lagatexti og stjórnarskrártexti sé ekki á lagamáli, á bak við það sé ákveðin túlkun. En þetta er það sem maður vill byrja á, að lög og stjórnarskrá sé aðgengileg fyrir alla. Frumvarp eins og þetta, að lækka kosningaaldurinn, hjálpar rosalega mikið til við það. Við þurfum þá miklu frekar að nálgast kjósendur, og að sjálfsögðu einnig þá yngri sem eru þátttakendur í lýðræðissamfélagi, á þeirra forsendum. Ég held að það muni gera umræðuna miklu betri. Ég hef alveg lent í því að vera í þingnefnd og það er beinlínis logið að mér. En það er einhvern veginn miklu verra að ljúga að börnum. Ég veit ekki hvort sömu aðilar hefðu haft samvisku í sér til þess að gera það, kannski. Ef svo er er það mun alvarlegra að mínu viti því að ég á alla vega að geta borið ábyrgð á því sjálfur.

Þar komum við kannski að lykilatriðinu. Margir telja að fólk sé einhvern veginn ekki búið að fá prófskírteini í því að geta tekið þátt í lýðræðinu. Ég er ósammála því, mjög ósammála, því að eins og ég nefndi förum við einungis að læra þegar við förum að taka þátt. Þess vegna þurfum við einfaldlega bæði að lækka kosningaaldurinn niður í það viðmið sem við erum t.d. með í aðalnámskrá og passa að þau hæfniviðmið séu uppfyllt eða kláruð sem við setjum í aðalnámskrá, að fólk sem fer í gegnum grunnskóla fái virkilega lýðræðismenntun, prófi lýðræðið á alls konar forsendum, ekki bara á bóklegum forsendum heldur líka með alvöruverkefnum, með alvöruvandamálum eins og talað var um í flutningsræðunni varðandi skólakerfið okkar og ungmennin úr Hafnarfirði sem komu með tillögur að því hvernig á að gera betur, hvernig á að gera meira, gera öðruvísi. Þetta eru leiðir, þetta eru hópar, þetta eru aðferðir sem við viljum virkja. Við viljum að allir hafi rödd. Ef við reynum að koma í veg fyrir það að ýmsir hópar, sérstaklega kannski minnihlutahópar, hafi rödd þá erum við ekki lýðræði. Það er bara samkvæmt skilgreiningunni. Þó að ekki séu allir með formlegan atkvæðisrétt þá eiga allir að geta verið þátttakendur.

Þess vegna styð ég að sjálfsögðu þetta frumvarp, að við lækkum kosningaaldurinn. Ég myndi vilja hafa hann enn lægri þannig að það væru sem fæstir sem hefðu ekki kosningarétt og sem flestir hefðu formlegan rétt til að segja sína skoðun, fylgja sinni sannfæringu, fylgja sinni samvisku með því að ýta á takka og segja já eða nei.