151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:34]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Mig langar aðeins að leggja orð í belg um þetta mál, málið sem hér er undir en ekki um önnur mál eða afstöðu einstakra þingmanna almennt til komu flóttafólks eða einhvers annars í öðrum lögum sem ekki eru til umræðu. Það er þörf umræða út af fyrir sig en er ekki málið sem við erum að ræða hér. Það er umhugsunarefni að mál sem er í raun jafn sjálfsagt og jafn eðlilegt og einfalt, um aukna skilvirkni í ákveðnum kerfum, skuli fá þá umræðu sem hefur að einhverju leyti verið hér í gangi í dag.

Hvað erum við að ræða, forseti? Við erum að ræða um samræmda móttöku flóttafólks, fólks sem hingað er komið. Það er verið að skerpa á hlutverki Fjölmenningarseturs, veita faglegar leiðbeiningar til móttöku sveitarfélaga, ráðgjöf vegna samræmdrar móttöku flóttafólks. Hver í ósköpunum getur verið á móti því að sveitarfélög fái ráðgjöf frá Fjölmenningarsetri? Það er verið að ræða um að það flóttafólk sem hefur ákveðið að þiggja ekki boð um búsetu í móttökusveitarfélagi en vill heldur vera á eigin vegum fái upplýsingar um almenna þjónustu sveitarfélaga frá Fjölmenningarsetri. Fjölmenningarsetur haldi utan um og standi fyrir samráði milli þeirra aðila sem koma að móttöku flóttafólks á Íslandi. Þetta er næstum svo leiðinlegt að lesa að maður missi áhugann á þessu, snýst um samræmingu í kerfinu. En þetta er prýðisgott mál því hvaða hópur þarf frekar á samræmingu kerfa og einföldun að halda en einmitt flóttafólk sem þekkir ekki okkar kerfi sem oft er ansi mikill frumskógur? Síðan er það upplýsingaöflun, að Fjölmenningarsetur afli upplýsinga frá Útlendingastofnun, sveitarfélögum og öðrum opinberum aðilum eftir því sem við á hverju sinni og sé heimilt að miðla viðeigandi upplýsingum og ráðgjöf til aðila þegar það er nauðsynlegt.

Þetta er nú allt og sumt, forseti. Það vekur furðu og ákveðinn ugg hvert umræðan fer þegar verið er að ræða svona mál. Fólk sem hingað er komið og er kannski í þeirri stöðu að þurfa hvað mest á stuðningi að halda — við getum ekki sammælst um að gera sem allra best í því.

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að heimsækja nýja starfsstöð Fjölmenningarseturs á dögunum þegar var verið að opna nýja ráðgjafarstofu fyrir innflytjendur og heyra í fólki þar akkúrat um þörfina á því að við vöndum okkur í öllum þessum málum. Þegar talað er við fólk í geiranum um þetta frumvarp þá kemur í ljós það sem öllum ætti að vera ljóst sem kynna sér það. Hér er í raun ekki verið að leggja til neitt nýtt eða U-beygju eða breytingu. Það er verið að skerpa á hlutum og einfalda. Fjölmenningarsetur væri með sín verkefni þó að þetta frumvarp næði ekki fram að ganga. Það náði ekki fram að ganga síðast. Fjölmenningarsetur hélt áfram að sinna sínum verkefnum, en gerði það ekki eins vel, hafði ekki sömu heimildir. Nú er ég ekki að kasta rýrð á Fjölmenningarsetur, alls ekki, forseti. Ég er einfaldlega að tala um að lagaumhverfið gerði þeim erfiðara fyrir. Það er það sem hæstv. ráðherra hefur í huga þegar hann leggur frumvarpið fram, að einfalda lagaumhverfið sem Fjölmenningarsetur vinnur eftir, samræma móttökuna. Sveitarfélögin sem verða móttökusveitarfélög njóta þess og flóttafólkið nýtur þess.

Forseti. Þegar ljóst var að þetta yrði á dagskrá þá hefði hverjum þeim sem af sanngirni færi um málið aldrei dottið í hug að þetta yrði eitthvert stórt mál og hér værum við í marga klukkutíma að ræða þetta. Allir hljóti að vera sammála um að þegar við veitum á annað borð þjónustu þá sé betra að sú þjónusta sé skilvirk. Nei. Það reynist fullmikil bjartsýni af minni hálfu að halda að svo sé. En lengi skal manninn reyna.

Ég er hugsi yfir því hvernig hvert einasta mál sem inniheldur orðin málefni innflytjenda eða flóttafólks eða hvað það er, hleypir upp kergju í hv. þingmönnum Miðflokksins sem skirrast ekki við að koma hingað og tala um málið af mikilli vanþekkingu. Þetta snýst um samræmingu móttöku flóttafólks. Þetta snýst um upplýsingaöflun. Þau sem eru á móti þessu frumvarpi eru það af einhverjum annarlegum hvötum en ekki vegna þess að þau séu á móti skilvirkni í þjónustu. Það hlýtur einfaldlega að vera.