151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

456. mál
[20:15]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Með þessu frumvarpi er lagt til að framlengja bráðabirgðaákvæði í lögunum þar sem samkvæmt samkomulagi aðila vinnumarkaðarins er leyfilegt að víkja frá hvíldarákvæðum. Til bráðabirgða er verið að fara á svig við lög um réttindi starfsmanna til að veita mikilvæga og nauðsynlega NPA-þjónustu. Þetta snertir fyrst og fremst þá starfsmenn sem veita þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir sem og þá einstaklinga sem nýta þjónustuna. Á meðan það er auðvitað nauðsynlegt að hægt sé að veita NPA-þjónustu og enginn ágreiningur um það, enda gríðarlega mikilvæg þjónusta fyrir þá sem hana þurfa, þá er sú staðreynd að ítrekað sé verið að framlengja bráðabirgðaákvæði þar sem vikið er frá ákvæðum laga um hvíld alls ekki til fyrirmyndar eða eftirbreytni. Höfum í huga að þetta er jú bráðabirgðaákvæði. Ég held ég fari með rétt mál, virðulegi forseti, að tvívegis áður hafi verið farið fram á framlengingu á þessum bráðabirgðalögum, fyrst í lok árs 2018. Jafnvel þá kom skýrt fram hjá hv. velferðarnefnd að það væri gríðarlega mikilvægt að þetta yrði skoðað, varanleg lausn fundin og sett í lög hið fyrsta því að sú staða mætti ekki koma upp aftur á Alþingi að þingið væri sett í þá stöðu að þurfa að afgreiða slík bráðabirgðalög enn eitt skiptið. Í ræðu við það tilefni sagði samflokkskona mín, hv. þm. Halldóra Mogensen, að hún vonaðist svo sannarlega til þess og lagði áherslu á að þetta yrði lagað sem allra fyrst, með leyfi forseta:

„NPA-aðstoð er búin að vera á tilraunastigi í þó nokkuð mörg ár. Þetta er vinna sem hefði átt að fara fram mun fyrr þannig að við hefðum verið tilbúin með einhverja framtíðarsýn í þessum málum og þyrftum ekki að vera að samþykkja bráðabirgðaákvæði enn einu sinni.“

Hún tiltók að í því tilliti hafi verið sérstaklega ákveðið að minnka tímann í eitt ár til að passa upp á að þessi vinna færi af stað og hún færi vel af stað þannig að við þyrftum ekki að víkja frá ákvæðum laga um hvíldartíma og næturvinnutíma heldur gætum við fundið varanlega lausn sem virkaði fyrir notendur NPA-þjónustunnar og einnig þá sem veita þjónustuna og starfa við þetta.

Forseti. Það hættir að vera bráðabirgðaákvæði þegar gengið er út frá því sem vísu að hægt sé að framlengja út í hið óendanlega. Þetta eru auðvitað ekki góð vinnubrögð og ekki til sóma þegar um svo mikilvæg réttindi er að ræða. En ég treysti því að bjartsýni hæstv. ráðherra tróni á toppnum og þetta mál verði leyst hið fyrsta.