151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

áfengislög.

504. mál
[21:20]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef einfalda spurningu fyrir hv. þingmann af því að hún talar mikið um aukið aðgengi að áfengi og hefur áhyggjur af þessu frumvarpi sem og vegna þess fyrirvara sem birtist frá þingflokki Framsóknarflokksins: Hver er hennar skoðun á því að á síðustu tíu árum hefur áfengisverslunum ríkisins fjölgað úr 17 í 51 og vínveitingaleyfi komin langt yfir 1.000? Er skoðun hv. þingmanns sú að þetta hefði ekki átt að gerast, að við eigum að fækka áfengisverslunum ríkisins? Hér er um að ræða 20 handverksbrugghús í yfir 20 sveitarfélögum víða um landið og eins og hv. þingmaður kemur inn á er það það takmarkað að ekki einu sinni allir falla þar undir þótt það sé mín trú að slíkt væri betra.

Þannig að ég vil bara spyrja hv. þingmann: Telur hún að aðgengi að áfengi hafi ekki aukist með fjölgun áfengisverslana ríkisins úr 17 í 51? Telur hún að slíkt hefði átt að koma til þingsins til umræðu? Mér finnst oft á tíðum örlitlar breytingar á þessu kerfi vera málaðar allt of dökkum litum og það er mjög ósanngjarnt fyrir íslenska framleiðslu og íslenska verslun.