Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:03]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur kærlega fyrir andsvarið, ég hef mjög gaman af því að fá hana inn í þessa umræðu til að taka þetta samtal. Við fórum saman í vettvangsferð um Norðurlöndin, fórum til Noregs og Danmerkur og skoðuðum það sem þau eru að gera þar. Við ræddum m.a. við pólitíska fulltrúa, þingmenn í Danmörku, og síðan fólkið á gólfinu, eins og ég myndi kalla það, Útlendingastofnun, ráðuneytin o.s.frv. Já, ég varð vör við það sem ég myndi kalla ómannúðleg viðhorf en þau voru það sem kom kannski mest á óvart.

Flest sem við sáum í Noregi kom mér ánægjulega á óvart og ég held að við getum lært margt af Noregi, t.d. varðandi samstarf við sveitarfélög og annað. Ég held að flestir nefndarmenn allsherjar- menntamálanefndar séu mér sammála þar. Þar eru hlutirnir sem við eigum að vera að einbeita okkur að, innviðirnir, hvernig við látum þetta allt saman ganga.

Í Danmörku sá ég þessi viðhorf, raunar mun verri en ég átti von á. En það tengdist málum sem hafa ekki komið upp hér á landi sem eru konur sem fóru m.a. til Sýrlands og gengu til liðs við öfgahópa þar. Þær lenda síðan í ofbeldi, þær eru danskir ríkisborgarar, eiga kannski uppruna sinn í þessum ríkjum en eru danskir ríkisborgarar og vilja koma til baka, og þær eru sviptar ríkisborgararétti. En þær eiga börn og þá er það auðvitað spurningin hvort börnin eigi ekki rétt á að koma. Viðhorfin voru með ólíkindum. Ég var örlítið slegin þegar danskur þingmaður talaði þannig að það væri svolítið ósanngjarnt af þessum konum að neita Danmörku um að taka börnin af þeim. Það var eins og dönsku þingmennirnir væru hneykslaðir á því að þessar konur vildu endilega fá að koma með, að þær neituðu að leyfa börnunum að koma til Danmerkur nema þær fengju að koma með. (Forseti hringir.) Þetta fannst mér mjög sláandi þannig að ég ætlaði bara að nefna það.

Að öðru leyti, varðandi þjónustusviptinguna, þá þakka ég þingmanninum kærlega fyrir spurninguna. (Forseti hringir.) Nei, hvergi á Norðurlöndunum er fólk svipt þjónustu alfarið og endanlega. Í Danmörku, þar sem þau eru einna hörðust, sögðu þau einmitt: Að sjálfsögðu ekki. Við viljum ekki hafa fólk (Forseti hringir.) búandi undir brúm hérna. — Þetta sögðu Danirnir en við ætlum að ganga enn lengra. Afsakið, hæstv. forseti.