Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:28]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég deili ekki við þingmanninn um þessa túlkun á hinu meinta samráði sem er þá kannski í besta falli sýndarsamráð. En eins og ég sagði í ræðu minni finnst mér eiginlega með ólíkindum þegar löggjafinn í sínu starfi í hv. allsherjar- og menntamálanefnd — ég sit ekki í þeirri nefnd og veit ekki hvernig starfið var þar. En hingað er málið komið og fyrir liggja umsagnir þeirra sem best þekkja til og gerst þekkja til í þessum málaflokki, m.a. frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sem okkur ber lögum samkvæmt, ef ég man rétt, að hafa samráð við við breytingar á þessum lögum. Það er hvorki lesið né hlustað. Það er auðvitað bara mjög einbeittur vilji til að fara sína leið í þessu máli og breyta lögunum eftir höfði hæstv. dómsmálaráðherra og Sjálfstæðisflokksins, vissulega með blessun samstarfsflokkanna tveggja og kannski fleiri flokka hér á þinginu. Þetta eru auðvitað algerlega ótæk vinnubrögð og til vansa fyrir þingið. Það veldur mér áhyggjum að meiri hlutinn sé tilbúinn að ganga svona langt í þessu máli og með svona augljósum hætti að láta sem málefnalegar og lögmætar ábendingar og athugasemdir hafi ekkert gildi.