Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:39]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég var glaður að heyra þegar hún sagði: Við græjum þetta. Ég held nefnilega að þetta sé þannig, þetta er bara mál til að græja. Hingað kemur hver stjórnarliðinn á fætur öðrum upp í pontu með húfuna niður fyrir augun og segir: Við ráðum ekkert við þetta. Ég velti því oft og tíðum fyrir mér hvaða samfélagi menn eru að lýsa þegar þeir segja: Við ráðum ekkert við þetta. Ef við skoðum hópinn sem er að koma til landsins, einhvers staðar á milli 4.000–5.000 manns sem komu hingað til Íslands á síðasta ári, þá kemur helmingurinn frá Úkraínu í boði íslenskra stjórnvalda, fólk sem væntanlega fær að komast aftur til síns heima, ekki innan langs tíma, vonandi verður það þannig. Fólk frá Venesúela er líka stór hópur og það hefur verið metið þannig að því sé ekki vært í sínu eigin heimalandi. Hvað stendur þá eftir? 800–900 manns að hámarki. Við erum í þeirri stöðu að okkur skortir vinnuafl til lengri tíma. Fólk sem flýr er alltaf að leita sér að viðurværi og leita sér að betra lífi. Það er enginn að koma hingað til að fara að setjast upp á sósíalinn hér, ekki eins og við gerðum þegar við fluttum til Danmerkur á hippatímabilinu og fórum bara inn í Kristjaníu og fengum okkur í pípu. Þetta fólk er í allt annarri stöðu.

Maður veltir fyrir sér: Er ekki verið að tala niður þetta góða samfélag sem við eigum þegar við komum hér og vælum yfir því að allt sé að hrynja?