Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:23]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svar við andsvari. Ég tek undir þetta með skilvirknina. Ég skil ekki alveg enn þá og ég hef raunar kallað eftir því að fá skýringar á því í hverju þessi skilvirkni ætti að felast. Ég set líka ákveðið spurningarmerki við þá nálgun að horfa á þessi mál út frá tómri tölfræði því að hér erum við að tala um fólk. Við erum að tala um fólk sem er búið að ganga í gegnum hörmungar. Það leitar enginn eftir alþjóðlegri vernd af léttúð. Mér þykir raunverulega alveg jafn mikilvægt að tryggja að við séum líka skilvirk gagnvart mannúð, að það sem við leggjum fram í þennan málaflokk nýtist, hvort sem það er mannafli, fjármunir eða orka. Mér þykir raunverulega mikilvægasti hlutinn að við nýtum allt það sem er sett í þetta kerfi þannig að við náum sem allra bestum árangri. Ég get ekki séð að við séum að ná þeim árangri í dag. Ég get heldur ekki séð að mögulegt sé að ná þeim árangri með því að horfa eingöngu á tölur. Það verður að taka til annarra þátta líka. Ég ætla að beina þessari spurningu til þingmannsins: Þurfum við ekki að taka örlítið meiri mannúð inn í þetta líka? Hvort hv. þingmaður sé ekki sammála því að mannúð sé raunverulega alveg jafn mikilvæg og skilvirkni.